Færsluflokkur: Fæðubótarefni

C-vítamín

C-vítamín gerir meira en að koma í veg fyrir kvef. Það er hjálparefni í ýmsum ferlum í líkamanum, t.d í myndun kollagens í bandvef, auk þess að auka upptöku á járni úr fæðunni. Vægur skortur af C-vítamíni kemur fram sem þreyta, minni mótstaða gegn sýkingum og blóðleysi vegna þess að upptaka á járni er léleg.

C-vítamín er öflugt andoxunarefni og berst á móti sindurefnum í líkamanum. Sindurefni (free radicals) geta valdið lifandi frumum skaða en C-vítamín verndar frumur líkamans, blóð og aðra vessa likamans frá skemmdum af völdum sindurefna. C-vítamíns gegnir einnig mikilvægu hlutverki í vöðvauppbyggingu og er mikilvægt bætiefni fyrir fólk sem æfir af krafti.. Það kemur í veg fyrir að nítur oxíð sé eyðilagt af sindurefnum sem eykur blóðflæði til vöðva.

C-vítamín heldur testósterón magni í líkamanum í hámarki með því að minnka hlutfall kortisóls á móti testósteróni. Rannsókn í Journal of Strength and Conditioning Research sýndi að inntaka á 1000 mg af C-vítamíni á dag minnkar losun kortisóls í líkamanum, en eins og við vitum er kortisól vondi kallinn sem eyðileggur vöðvana okkar. Þannig geta vöðvarnir stækkað og við getum lyft meiru.
Þar sem líkaminn ferlar C-vítamín mjög hratt þá mæla margir sérfræðingar með að taka 500 mg af C-vítamíni 2x á dag, sérstaklega mikilvægt er að taka C-vítamín eftir æfingu.

Það er meira af C-vítamíni í papriku – í einni stórri papriku eru 209 mg C-vítamín á móti 98 mg í einni stórri appelsínu.


Tölulegar staðreyndir um kolvetnadrykki

Í algengum og vinsælum kolvetnadrykk eru 20 g af kolvetnum í 100 ml.

Ein flaska af þessum drykk er 500 ml og inniheldur því 100 grömm af kolvetnum.

Það jafngildir kolvetnaskammti í:

400 grömmum af elduðum hýðishrísgrjónum,

120 grömmum af þurru haframjöli (40-50 g er eðlilegur skammtur í hafragraut)

300 grömmum af sætum kartöflum

einum og hálfum pakka af hrískökum

Naglinn stórefast um að fólk myndi slafra slíku magni af fæðu í sig á meðan æfingu stendur til þess eins að fá orku fyrir átökin.


Eru prótínsjeikar nauðsynlegir eftir æfingu?

Er nauðsynlegt að fá sér prótínsjeik eftir æfingu?

Markmiðið með EÆ (eftir æfingu) máltíð er að koma í veg fyrir niðurbrot próteina, stuðla að próteinmyndun í vöðvafrumum á meðan líkaminn er móttækilegur fyrir því að þessir hlutir gerist. 

Próteinmyndun í líkamanum verður til vegna áreitis - þetta áreiti eru þungar lyftingar -  semsagt tekið á járninu almennilega, og nei, bleiku plastlóðin teljast ekki til lyftinga. 

arnold-chest

 

Þetta þýðir að eftir æfingu er líkaminn móttækilegastur fyrir upptöku næringarefna fyrir vöðvavöxt, þ. e próteinmyndun, en á öðrum tímum dagsins. 
Þessi móttækileiki er mestur fyrsta klukkutímann eftir æfingu, en fer stigminnkandi eftir það, þó hann haldist yfir eðlilegum mörkum í meira en sólarhring.
Það er því lykilatriði að nýta þennan glugga eftir æfingu og gefa líkamanum rétt byggingarefni fyrir vöðvavöx sem fyrst til að ná hámarksárangri. 

Af hverju að fá sér prótein sjeik en ekki kjúklingabringu eða aðra fæðu eftir æfingu? 

Ástæðan er sú að mysuprótín er hraðlosandi prótín, þ. e það skilar sér hratt út í blóðrás, á meðan kjúklingabringa er hæglosandi prótín og skilar sér mun hægar út í blóðrás. 
Hraðlosandi prótín (mysuprótín) 0-45 mín eftir æfingu hefur því þann kost umfram aðra fæðu að veita líkamanum nauðsynlegar amínósýrur sem allra fyrst fyrir próteinmyndun í vöðvafrumum, sem kemur í veg fyrir að hann brjóti niður það amínósýrur sem fyrir eru í vöðvavef til að svala þessari þörf sinni.

 

Protein powder

Það tekur alltaf smá tíma fyrir gumsið að meltast, sem þýðir að næringarefnin úr FyÆ (fyrir æfingu) máltíð eru tiltæk fyrir þessa hluti mun fyrr en EÆ máltíðin. 
Það sem við látum ofan í okkur fyrir æfingu er þannig að sama skapi mjög mikilvæg og ekki síður en EÆ máltíð. 
Ef FyÆ máltíð er hins vegar eingöngu djúsglas, próteinsjeik eða annað smáræði, verður EÆ máltíðin enn mikilvægari til að koma í veg fyrir frekara niðurbrot og stuðla að próteinmyndun í vöðvum.

 

 


Heilræði Naglans

 

Allir þeir sem stunda brennsluæfingar á fastandi maga ættu að gúffa í sig BCAA töflum fyrir og eftir átökin.  BCAA (Branced Chained Amino Acids) samanstanda af þremur amínósýrum: Leucine, isoleucine og Valine og er Leucine þeirra mikilvægust. 

Ástæðan fyrir því að Naglinn mælir með þessu athæfi er að þegar við vöknum er líkaminn algjörlega tómur eftir 8-10 tíma föstu.
  
Líkaminn kýs helst kolvetni sem eldsneyti fyrir öll átök.  Hins vegar í föstuástandi kemur orkan úr fituforðanum, því það eru engin kolvetni til staðar í líkamanum.
Hins vegar er sá galli á gjöf Njarðar að hann nartar líka í amínósýrurnar í vöðvunum til að fá meiri orku þegar við erum fastandi.
 
Þess vegna er mikilvægt að veita líkamanum aukalega amínósýrur fyrir og eftir brennsluæfingar sem hann getur gætt sér á í stað þess að brjóta niður okkar dýrmæta vöðvamassa.


Munurinn á mysuprótíni og casein prótíni.


Mysuprótín er mikilvægasta prótínduftið í vopnabúri okkar og allir sem er alvara í sinni þjálfun ætti að eiga dunk af mysuprótíni í skápnum.
Það meltist hratt sem þýðir að þegar vöðvarnir þurfa á aminosýrum að halda ASAP þá er mysuprótín besti kosturinn. Til dæmis þegar við vöknum, sem og fyrir og eftir æfingu.
Mysuprótín inniheldur hátt hlutfall af BCAA aminosýrum, sem eru þær mikilvægustu til að byggja kjöt á beinin. Rannsóknir hafa sýnt að mysuprótín eykur blóðflæði og stuðlar þannig að betra flæði vöðvabyggjandi næringarefna til vöðva. Besti kosturinn í mysuprótíni er: Whey protein isolates, sem meltast mun hraðar en Whey protein concentrate sem er þá næstbesti kosturinn.

Casein er unnið úr mjólk líkt og mysuprótín, en öfugt við mysuprótín meltist casein mjööög hægt. Þegar við erum búin að svolgra í okkur casein prótíndrykk þá er hann eins og risastór garnhnykill í mallanum og meltingarensímin dunda sér við að kroppa í hann.
Þetta ferli tekur allt að 8 tíma, sem veitir okkur því stöðugt flæði af aminosýrum.
Það er sérstaklega mikilvægt á meðan við sofum og því ættu allir að skella í sig einum djúsí casein sjeik fyrir svefninn til að koma í veg fyrir vöðvaniðurbrot sem á sér stað þegar langt líður milli máltíða.
Líkaminn þarf aminosýrur til að fúnkera rétt og þegar við erum ekki að borða þær, eins og þegar við sofum, þá nartar líkaminn í vöðvana til að ná í þær.
Það er ekki vitlaust að bæta smá casein út í mysuprótín-sjeikinn sinn eftir æfingu til að tryggja áframhaldandi flæði af aminosýrum eftir að mysuprótínið hefur runnið í gegn.


Koffín

 

Naglinn veit um fjölmarga sem segjast ekki geta vaknað almennilega nema að fá sér kaffibolla.  Naglinn er blessunarlega laus við þessa fíkn, og hefur aldrei komið þessum vinsælasta drykk jarðar ofan í sig.  En það er skiljanleg ástæða fyrir því að fólk sækir í svarta sullið til að hrista af sér svefndrungann.

 

 Koffín er vinsælasta lyf í heimi.  Koffín hefur mikil örvandi áhrif á miðtaugakerfið en það er félagslega samþykkt örvandi efni sem er framleitt og markaðssett án lyfseðils.   

 

Koffín hefur ýmsa góða kosti, sérstaklega fyrir fólk sem æfir. 

 

Koffín er hraðvirkt efni sem veitir líkamanum orku fyrir átökin.  Margir drekka einn til tvo bolla af kaffi fyrir æfingu.  Rannsóknir hafa sýnt að u.þ.b 150 g af koffíni eins og er í c.a einum bolla af kaffi getur dregið úr þreytueinkennum og aukið frammistöðu á æfingu.  Eins hefur verið sýnt fram á að fólk getur æft þriðjungi lengur eftir neyslu á koffíni, úthaldið verður meira og harðsperrur koma síður fram. 

Koffín hefur líka áhrif á ATP kerfið, en ATP er, eins og margir muna úr fyrri pistlum Naglans, sú orkueining sem líkaminn notar til að framleiða kraftinn sem þarf í lyftingar og snarpa spretti.

coffee%20poster

 

Koffíni svipar til efedríns í virkni þess á miðtaugakerfið en blanda af þessum tveimur efnum var mjög vinsæl í fitubrennslutöflum áður en efedrín var bannað.  Koffín eykur árvekni og fókusinn verður skýrari, adrenalín flæði verður meira og hjartsláttur eykst.  Það er aðallega í gegnum þessa virkni sem koffín hefur áhrif á frammistöðu á æfingu.  Adrenalínflæðið keyrir upp orkustig líkamans og veitir andlegan fókus sem þarf í átökin.     

 

Hins vegar er meira ekki betra þegar kemur að koffíni.  Sýnt hefur verið fram á öfug áhrif þegar magn koffíns er orðið of mikið (> 500mg).  Þá versnar frammistaðan.  Það er líklega vegna þess að betri frammistaða er vegna aukinnar árvekni, en það þarf að vera ákjósanlegur skammtur af árvekni.  Hins vegar þegar við erum orðin of örvuð getur það hamlað frammistöðu okkar á æfingu.

 


Nokkur góð bætiefni til að byggja upp vöðva.

 

Mysuprótín:  Toppar listann yfir vöðvabyggjandi bætiefni því það er mikilvægast í myndun prótína í líkamanum.  Mysuprótín er mjólkurprótín sem hefur hátt hlutfall BCAA amínósýra.  Mysuprótín frásogast hratt og skilar sér því hratt til vöðvanna til að byggja þá upp.  Mysuprótín innihalda einnig peptíð (lítil prótín) sem auka blóðflæði til vöðva.  Þess vegna er mælt með að fá sér mysuprótín strax að lokinni æfingu. 

Hvernig má hámarka áhrif þess? Taktu 20 g af mysuprótíni fyrir æfingu og 40 g innan 60 mínútna eftir æfingu.  Einnig má hafa í huga að taka 20 g af mysuprótíni um leið og maður vaknar til að hefja strax vöðvastækkun. 

 

Kreatín: Kreatín er myndað úr þremur amínósýrum: arginine, glycine, methionine.  Vísindalegar rannsóknir sýna að þeir sem taka kreatín bæta á sig vöðvamassa og bæta styrkinn svo um munar.  Kreatín virkar á marga vegu.  Í fyrsta lagi eykur það magn skjótrar orku í vöðvunum sem þarf til að framkvæma endurtekningar í lyftingum.  Því meira sem er til staðar af þessari skjótu orku því fleiri endurtekningar er hægt að gera með ákveðinni þyngd.  Það leiðir til að við verðum stærri og sterkari með tímanum.  Kreatín dregur líka meira vatn inn í vöðvafrumur, sem teygir á þeim og það stuðlar að auknum langtíma vöðvavexti.  Nýlega hafa niðurstöður rannsókna sýnt að kreatín eykur hlutfall af  IGF-I (insulinlike-growth factor) í vöðvum sem er mikilvægt fyrir vöðvavöxt.

Hvernig má hámarka áhrif þess?  Taktu 2-5 g af kreatíni með prótín sjeik fyrir æfingu.  Þetta hjálpar til að halda vöðvunum mettuðum af kreatíni og framleiðir skjóta orku sem er nauðsynleg til að klára fleiri endurtekningar.  Síðan skaltu taka 2-5 g með prótín sjeiknum eftir æfingu, því þá sjúga vöðvarnir kreatíníð hratt til sín.  Á hvíldardögum skaltu taka 2-5 g með morgunmatnum.    

 

BCAA: Hugtakið BCAA (branched chained amino acids) vísar til amínósýranna leucine, isoleucine og valine.  Þessar amínósýrur eru án efa þær mikilvægustu í viðgerð og byggingu vöðvavefs.  Leucine er mikilvægast af þessum þremur, því eins og rannsóknir sýna þá getur hún stuðlað að myndun prótína í líkamanum upp á eigin spýtur.  Það er samt betra að taka allar þrjár BCAA amínósýrurnar því þær vinna saman í ýmsum þáttum.  Til dæmis vöðvavexti, auka orku á æfingu, hindra kortisól framleiðslu (niðurbrjótandi hormón sem hamlar testósterón) og minni harðsperrur eftir æfingu. 

Hvernig má hámarka áhrif þeirra?  Taktu 5-10 g af BCAA með morgunmat, með prótínsjeik fyrir og eftir æfingu.  Veldu vöru sem inniheldur leucine í hlutfallinu 2:1 á móti isoleucine og valine.  Til dæmis ef þú tekur 5 g skammt þá ætti 2,5 g að vera úr leucine og 1,25 g úr isoleucine og 1, 25 g úr valine.

 

Beta Alanine/Carnosine:  Í líkamanum binst amínósýran Beta Alanine við amínósýruna Histidine og saman mynda þær carnosine.  Carnosine finnst í miklu mæli í Týpu II vöðvaþráðum, sem notaðir eru við sprengikraft líkt og lyftingar eða spretthlaup.  Rannsóknir sýna að vöðvar sem hafa hærra magn af carnosine hafa meiri styrk og úthald.  Carnosine virðist auka getu vöðvaþráða til að dragast saman með meira afli og þeir eru lengur að þreytast.  Nokkrar rannsóknir benda til aukningar í vöðvastyrk og krafti í íþróttamönnum sem taka Beta-Alanine.  Nýleg rannsókn sýndi að þeir sem tóku Beta-alanine samhliða kreatíni bættu á sig meiri vöðvamassa og misstu meiri líkamsfitu samanborið við þá sem tóku eingöngu kreatín.

Hvernig má hámarka áhrif þess?  Taktu 1 g af Beta-Alanine eða carnosine með máltíðum 3-4 sinnum á dag.

 

Nitur-oxíð (NO) bætiefni: Nitur-oxíð (NO) er mólekúl sem finnst í líkamanum og tekur þátt í margvíslegum ferlum.  Það ferli sem vekur áhuga líkamsræktarfólks er hæfni þess að víkka út æðar sem leyfir enn meira blóðflæði til vöðva og þar með fær hann aukið súrefni, næringarefni, vöðvabyggjandi hormón og vatn.  Þetta veitir okkur meiri orku á æfingu og vöðvinn verður "pumpaðri" og jafnar sig fyrr eftir átök.  NO bætiefni innihalda ekki nitur-oxíð heldur amínósýruna arginine sem er breytt í NO í líkamanum.  Rannsóknir hafa sýnt að vöðvastyrkur og vöðvastækkun eykst hjá þeim sem taka arginine.

Hvernig má hámarka áhrif þess?  Taktu NO bætiefni sem veitir 3-5 g af arginine.  Einnig skaltu hafa í huga að nota vöru sem inniheldur einngi citrulline, pycnogenol og ginseng sem hjálpa arginine við að auka NO í líkamanum.  Taktu NO bætiefni á morgnana fyrir morgunmat, 30-60 mínútum fyrir æfingu, beint eftir æfingu og 30-60 mínútum fyrir kvöldmat.  Best er að taka NO bætiefni án matar til að hámarka frásog þess.

 

Glútamín: Þessi amínósýra hefur verið á vinsældalistum líkamsræktarfólks um áratuga skeið því hún er lykilþáttur í virkni vöðva og er ein af þeim amínósýrum sem finnst mest af í líkamanum.  Glútamín kemur við sögu í fjölmörgum vöðvabyggjandi ferlum, til dæmis að auka vöðvavöxt með því að auka hlutfall leucine í vöðvaþráðum, hjálpar til við að minnka vöðvaniðurbrot og styrkir ónæmiskerfið, sem kemur í veg fyrir að við veikjumst og missum þar af leiðandi af æfingu.  Ef glútamín er tekið fyrir æfingu getur það minnkað vöðvaþreytu og aukið hlutfall vaxtarhormóna. 

Hvernig má hámarka áhrif þess?  Taktu 5-10 g af glútamíni á morgnana, fyrir og eftir æfingu og fyrir svefn.

 

ZMA:  ZMA er blanda af zink, magnesíum og B6 vítamíni.  Þetta er mikilvægt bætiefni því þeir sem æfa mikið skortir oft þessi steinefni sem eru mikilvæg til að viðhalda réttu hormóna hlutfalli í líkamanum og bætir svefninn sem er nauðsynlegt til að vöðvarnir nái að jafna sig.  Áköf þjálfun getur haft áhrif á magn testósteróns og IGF-i.  Ein rannsókn sýndi að þeir sem tóku ZMA yfir 8 vikna þjálfunartímabil juku magn testósteróns og IGF-i í líkamanum.  Hins vegar minnkaði testósterón og IGF-i hjá þeim sem tóku lyfleysu.  Aukið testósterón og IGF-i í líkamanum hefur gríðarleg áhrif á styrk og stærð vöðva.

Hvernig má hámarka áhrif þess?  Taktu ZMA 30-60 mínútum fyrir svefn án matar eða einhvers sem inniheldur kalk.  Með því að taka ZMA á tóman maga hámarkar frásog þess og nýtingu þess til að bæta gæði svefnsins.

 

 

 


L-karnitín

 

Amínósýran L- Karnitín hefur notið vaxandi vinsælda á undanförnum árum.  Hún hefur notuð í ýmsum tilgangi, m. a til að stuðla að vexti, auka orku og sem fitubrennsluefni.    

 

L-karnitín myndast í líkamanum í lifur og nýrum úr tveimur amínósýrum, lysine og methinione ásamt þremur vítamínum níasín, B6 vítamíni og C-vítamíni

Einnig fáum við hana úr fæðunni, en rautt kjöt (nautakjöt, lambakjöt) og mjólkurvörur eru auðug af L-karnitíni, einnig finnst nokkurt magn í avókadó en lítið er af því í öðru grænmeti og ávöxtum. 

 

 

Nautakjöt
 

L- Karnitín er mikilvægt við flutning fitusýra innan líkamans og þannig mikilvægt í að melta fæðu til orkumyndunar.  L-karnitín veitir vöðvum líkamans orku, t.d hjarta og rákóttum vöðvum.  Sjúklingar með kransæðasjúkdóma sem fá L-karnitín eiga oft auðveldara með að vinna og gera ýmsar æfingar. 

L-karnitín flytur fitusýrur á borð við tríglýseríð inn í frumur líkamans þar sem þær nýtast sem orka.  Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að dagleg neysla L-karnitíns getur dregið úr tríglýseríðum í blóði og þannig minnkað blóðfitumagn í líkmanum.  Þegar þessir sömu einstaklingar hætta síðan að taka L-karnitín eykst tríglýseríð magn í blóði aftur. 

Hátt magn tríglýseríða í líkamanum eru einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.  Rannsóknir hafa einnig sýnt að neysla á L-karnitíni eykur magn HDL-kólesteróls í blóði, en það er góða kólesterólið sem tekur þátt í vörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum. 

Keppnisfólk í íþróttum hefur í auknum mæli farið að neyta L-karnitíns í stórum skömmtum (2-4 g fyrir keppni) vegna þeirrar kenningar að L-karnitín geti byggt upp vöðva og aukið þrek.  Enn hefur þetta ekki verið rannsakað til hlítar en niðurstöður benda til að L-karnitín geti aukið þol íþróttamanna með því að auka virkni hjartans til að dæla meira magni af blóði og örva orkubirgðir þess. 
Einnig er talið að neysla L-karnitíns geti minnkað magn mjólkursýru sem myndast í vöðvum við áreynslu sem leiðir til að vöðvaúthald verður meira.   

 

 

baby-kitty-lifting-weights

 

L-karnitín hefur einnig verið vinsælt fyrir fólk í megrun, því neysla þess virðist draga úr hungri og máttleysi. 

Ekki eru þekktar aukaverkanir af neyslu L-karnitíns, jafnvel þó þess sé neytt í stórum skömmtum.  Algengustu skammtar eru 2-4 g klukkutíma fyrir æfingu. 


Gamla góða Lýsið

Lýsi er líklega það bætiefni sem mest er neytt af á Íslandi.  Að meðaltali tekur hver Íslendingur um 3 desilítra af lýsi á ári og er það langmesta neysla í heiminum. 

lýsi

Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á gagnsemi lýsis gagnvart hinum ýmsu sjúkdómum, og þar hafa Omega - 3 fitusýrurnar verið í aðalhlutverki.  Árið 1970 fóru danskir læknar að skoða eskimóa á Grænlandi, en lengi hafði verið vitað að tíðni hjarta- og æðasjúkdóma væri mun lægri hjá Grænlendingum borið saman við t.d Dani, þrátt fyrir mikla fituneyslu.  Það kom í ljós við rannsókn á mataræði eskimóanna að þeir neyttu mikillar fiskifitu.  Athygli Dananna beindist fljótlega að Omega - 3 fitusýrunum í fiskifitunni, og þá helst DHA og EPA sem eru ómettaðar fitusýrur.  Rannsóknir á DHA og EPA hafa leitt margt merkilegt í ljós. 

Flestir vísindamenn eru farnir að hallast að ótvíræðum jákvæðum áhrifum lýsisneyslu á hjarta- og æðasjúkdóma.  Annars vegar getur lýsi haft jákvæð áhrif á samsetningu blóðfitunnar með því að lækka hlutfall tríglýseríðs og kólesteróls í blóði og dregið þannig úr æðakölkun.  Hinsvegar hefur lýsi áhrif á prostaglandínframleiðsluna og þannig um leið á storknunareiginleika blóðsins. 

Allt frá 18. öld hefur lýsi verið gefið við liðagigt með góðum árangri.  Lýsi virðist hægja á framgangi og einkennum liðagigtar en læknar ekki sjúkdóminn.  Omega - 3 fitusýrur breyta hlutfalli prostaglandína í líkamanum þannig að minna myndast af bólgumyndandi prostaglandínum. 

Lýsi dregur einnig úr einkennum á IgA nephropathy, sem er algengur nýrnasjúkdómur. 
Nýlegar rannsóknir hafa jafnframt sýnt fram á að regluleg neysla lýsis lækkar blóðþrýsting hjá fólki með of háan blóðþrýsting. 

Hákarlalýsi hefur verið töluvert notað á Norðurlöndum til að hraða græðslu sára og styrkja ónæmiskerfið og þar með draga úr hættunni á alls kyns sýkingum.  Í hákarlalýsi er mikið af svokölluðum alkoxýglýserólum, en þau hafa verið notuð sem hjálparmeðferð við geislameðferð til að draga úr hliðarverkunum hennar, svo sem vefjaskemmdum.

hákarl

 

Auk Omega-3 fitusýranna inniheldur lýsi bæði A- og D- vítamín.  Ekki þarf að hafa áhyggjur af of stórum skömmtum af lýsi hjá fullorðnum en komið hafa fram D-vítamín eitrunareinkenni hjá börnum sem hafa fengið AD-vítamíndropa og lýsi samtímis.

 

Nýlega hafa einnig komið fram rannsóknir sem sýna að 2,000 - 4,000 mg af EPA og DHA á dag, hvort sem er úr fiski eða með bætiefnum, getur bætt árangur í íþróttum.  Bætingar bæði í styrk og þoli hafa einnig komið fram í rannsóknum.  Hjá þeim íþróttamönnum sem prófaðir voru komu bætingar fram í auknum þyngdum í bekkpressu, meiri stökkkrafti í hástökki og langstökki, bættum hlaupatíma og minni bólgum í vöðvum.

Rannsakendur geta sér til um að þessar bætingar í íþróttum megi rekja til jákvæðra eiginleika EPA og DHA.  Þessir eiginleikar eru m. a framleiðsla vaxtarhormóna, bólgueyðandi virkni, aukin súrefnisupptaka, betri insúlínviðbrögð í frumuhimnum og blóðþynnandi áhrif.  Einnig hefur regluleg neysla EPA og DHA áhrif á að súrefni og næring flyst fyrr til vöðva og stuðla þannig að því að líkaminn þarf styttri tíma til að jafna sig eftir erfiðar lotur af æfingum.

 

 

Töfrapillur og galdramjöður

Fyrir marga sem eru pirraðir og frústreraðir yfir litlum sem engum árangri, þrátt fyrir að viljinn sé fyrir hendi, eru vaxtarbætandi lyf og hormónar vænleg töfralækning á þeirra vandamálum. 

Sterar hafa verið til lengi, sem og offitulyf.  Nýlega hafa vaxtarhormón (HGH) komið fram á sjónarsviðið, og verið notuð sem yngingarlyf eða í hormónaskiptameðferð.  Oft er þörf á þessum lyfjum í klínískum tilgangi en það færist æ meir í vöxt að auglýsingum sé beint að heilbrigðu miðaldra fólki sem vilja viðhalda æskuljómanum, eða að þeim sé beint að ungu fólki sem vill stytta sér leið í þjálfuninni.

Það má ná fram dramatískum skammtíma árangri á líkamssamsetningu (vöðvar vs. Fita) með notkun alls kyns megrunarlyfja, stera, fitubrennsluefna, skjaldkirtilslyfja, vaxtarhormóna og annarra efna. 

Hvaða nöfnum sem lyfin nefnast þá falla þau öll undir sama hatt:

 

  • 1) Margmilljóna peningamaskínur
  • 2) Skammtíma aðferð til að meðhöndla afleiðingar, en ekki orsök

 

Ef við tökum offitulyf sem dæmi.  Hvað myndi gerast ef lyfjafyrirtækin myndu finna upp "öruggt og áhrifaríkt" lyf gegn offitu og myndu markaðssetja það í massavís?

Lyfjafyrirtækin myndu verða ríkari en offituvandinn yrði ennþá til staðar.  Ef við spáum aðeins í þessu.  Læknaði Xenical offituvandann?  En Phentermine? Eða Meridia? Adipex? Bontril? Tenuate?

 

Hvað með efedrínið og öll fitubrennsluefnin? Milljónir hafa hámað þær pillur í sig.  Lagaði það offituvandann?

 

Í sumum tilvika eru lyf nauðsynleg, jafnvel upp á líf og dauða og vega þá upp á móti áhættunni af því að taka þau.  Slík tilvik eru samt afar fá, því flestir sem eru yfir kjörþyngd eru ekki lífshættulega feitir.  Því ætti lyfjasmjatt að vera allra síðasta úrræðið sem reynt er.  Það kemur ekkert í staðinn fyrir rétta næringu, hreyfingu og breytingu á lífsstíl.

Við lifum í heimi þar sem allt sem gerist hefur orsök.  Það gerist ekkert fyrir tilviljun.

Grannur líkami gerist ekki fyrir tilviljun

Feitur líkami gerist ekki fyrir tilviljun

Grannur og feitur líkami eru afleiðingar, og báðir hafa orsök.  Ef þú ert of þungur geturðu búið til langvarandi breytingar með því að svipta hulunni af orsökum þyngdar þinnar. 

Orsök of mikillar líkamsfitu er í nær öllum tilvikum hreyfingarleysi, léleg næring og oft neikvæð sjálfsmynd.  Lyf geta bara unnið á afleiðingunni sem er fitan en hún kemur aftur ef orsökin er ekki meðhöndluð.

Það er ekki hægt að ætlast til langvarandi breytinga á lyfjum því þau meðhöndla eingöngu afleiðingarnar.

Við höfum valdið til að betrumbæta líkamann og það er alltaf hægt að bæta líkamlegt ástand sitt, óháð erfðum, stað og stund. 

Hvernig?  Jú með því að taka ábyrgð á eigin ástandi og gera jákvæðar breytingar á hverjum degi.  Þú þarft hreinlega að breyta lífsstílnum. 

 

Langvarandi heilsa, fallegur líkami og kjörþyngd koma ekki úr lyfjaglasi, alveg sama hvaða efnablöndu farmasíurnar kokka upp.  Þeir sem eru ekki sammála þessu uppskera skammtímaárangur en án þess að gera langtíma breytingar á lífsstíl sínum, reka þeir sig fljótlega á vegg.

 

Í draumaveröld bindast líkamsræktariðnaðurinn og lyfjafyrirtækin höndum saman til að stöðva þessar hugsanavillur fólks og kenna fólki að breyta lífsstíl sínum til hins betra og hafa áhrif á skoðanir þess, í stað þess að selja töfrapillur í Hagkaup eða skrifa upp á endalausa lyfseðla handa Jóni og Gunnu.

 

Til þess að ná langvarandi kjörþyngd, þarf að átta sig á orsökum offitu og yfirþyngdar. 

Þær geta verið:

 

  • Of margra hitaeininga neytt yfir daginn
  • Lélegt val á fæðu
  • Hreyfingarleysi
  • Óhollar lífsstílsvenjur (reykingar, áfengisdrykkja)
  • Sálrænar og tilfinningalegir þættir

 

Svo er það bara að meðhöndla þessar orsakir.  Aðeins þegar þær hafa verið fjarlægðar munu óæskilegar afleiðingar (fitan) hverfa fyrir fullt og allt.  Þangað til eru allar aðrar lausnir aðeins skammgóður vermir, eins og að pissa í skóinn sinn.       


Næsta síða »

Höfundur

Ragnhildur Þórðardóttir
Ragnhildur Þórðardóttir

Hér læt ég gamminn geysa um ýmislegt sem tengist hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og hollu mataræði í formi pistla og fróðleiks.  Mín lífsviðhorf eru að góð heilsa er gulli betri og að í hraustum líkama býr heilbrigð sál. 
Ég tek einnig að mér fjarþjálfun.

Allar upplýsingar um fjarþjálfun á www.ragganagli.com

Spurt er

Hvað gerirðu margar brennsluæfingar á viku?

Nýjustu myndir

  • front-plank-exercise
  • binge_barbie
  • sleep-deprived
  • phpwWI9BvAM
  • eating too much

Aðrir vaðlarar

Bækur

Góðar bækur

  • Bók: A Thousand Splendid suns
    Khaled Hosseini: A Thousand Splendid suns
    Frábær bók en jafnframt mjög átakanleg. Þurfti að loka henni nokkrum sinnum og jafna mig því lýsingarnar á heimilisofbeldinu voru einum of grafískar fyrir minn smekk.
    *****
  • Bók: Kite runner
    Khaled Hosseini: Kite runner
    Algjör snilld. Fjallar um tvo drengi í Afganistan í kringum 1970 áður en allt fór til fjandans þar í landi.
    *****
  • Bók: On beauty
    Zadie Smith: On beauty
    ***
  • Bók: Espresso tales
    Alexander McCall Smith: Espresso tales
    Framhald af 44 Scotland Street. Er að lesa hana núna.
  • Bók: 44 Scotland Street
    Alexander McCall Smith: 44 Scotland Street
    Gerist í Edinborg og þvílík nostalgía sem ég fæ við að lesa þessa bók enda kannast maður við alla staðina sem fjallað er um.
    ****
  • Bók: The time traveller's wife
    Audrey Niffenegger: The time traveller's wife
    Með betri bókum sem ég hef lesið. Falleg ástarsaga um mann og konu sem þurfa að díla við tímaflakk mannsins.
    ****
  • Bók: We need to talk about Kevin
    Lionel Shriver: We need to talk about Kevin
    Hugleiðingar móður fjöldamorðingja um áhrif uppeldis og erfða. Mjög athyglisverð lesning, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á "nature-nurture" deilunni.
    *****

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 548860

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband