Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

SFM....hvað er nú það??

Það er ekki í tísku lengur að vera svangur. 

Það er gömul mýta að til þess að grennast eða missa kíló eigi fólk að svelta sig og vera hungrað allan daginn.  Megrunarkúrar hafa verið vinsælir í gegnum tíðina og má nefna nokkur dæmi eins og Atkins, greipsafakúrinn, súpukúrinn, ekki borða neitt fyrir kl. 18, kolvetnasnauði kúrinn. 

Staðreyndin er hins vegar sú að þegar fólk hættir í megrunarkúrum og byrjar að borða eðlilega þá gerist það nær undantekningalaust að kílóin koma aftur og jafnvel fleiri til.

Af hverju gerist það??

Fituvefur er langtímaorka. Í  gamla daga þegar forfeður okkar reikuðu sársvangir í örvæntingarfullri leit að æti þá var það fituforðinn sem þeir höfðu safnað á sig í góðæri sem veitti þeim orku. 

En í vestrænum nútímasamfélögum er matvörubúð eða veitingastaður á öðru hverju horni og sáralítil hætta á hungurdauða en líkaminn veit það ekki.  Þrátt fyrir að smjör drjúpi af hverju strái í hinum vestræna heimi þá er það líkamanum ennþá eðlislægt að halda sem lengst í fituna því hún á að veita okkur langtímaorku í hungursneyð.  Þegar við förum í megrun og skerum niður hitaeiningar á dramatískan hátt þá heldur líkaminn að nú sé hallæri og því þurfi að passa að ganga ekki of hratt á langtímaorkuna.  Orkan er því dregin úr prótíni úr vöðvum.  Þegar þetta gerist á hverjum degi eins og í megrun þá er allt puðið í ræktinni unnið fyrir gíg.  Þetta ástand þar sem vöðvum er brennt í stað fitu kallast "katabólískt" ástand og er andstæðan við "anabólískt" ástand eða uppbyggingu vöðva.  (Það kannast kannski einhverjir við anabólíska stera, en það nafn draga þeir af því að vera vöðvauppbyggjandi.)

Það er semsagt arfleifð okkar að brenna færri kaloríum, hafa minni vöðvamassa og meiri fitu til að geta lifað lengur. 

Besta leiðin til varanlegs fitutaps er að breyta mataræði sínu til frambúðar og tileinka sér hollari matarvenjur frrekar en að gúlpa í sig lítrum af greipsafa eða borða bara þurran kjúkling. 

Sú aðferð sem hefur reynst mér best er svokölluð "Small frequent meals" eða SFM.  Hún felst í að brjóta heildarhitaeiningafjölda dagsins niður í 5-6 smáar og hollar máltíðir og borða á c.a 2-3 klukkutíma fresti yfir daginn. 

Með því að borða reglulega þá erum við að senda líkamanum þau skilaboð að óhætt sé að nota fitu sem orkugjafa, við þurfum ekki á henni að halda þar sem orkan komi reglulega og hungursneyð sé ekki framundan.  Þegar máltíðirnar eru smáar þá er orkan nýtt í stað þess að vera ónotuð og breytast í fitu eins og vill gerast þegar máltíðir eru of stórar.

 Bon appetite!!


Allt búið....í bili

Jæja.... þá er Þrekmeistarinn yfirstaðinn að þessu sinni og það er svolítið skrýtið að það sem ég æft eins og skepna fyrir síðustu mánuðina er allt í einu bara búið. 

Ég bætti tímann minn frá í október um 1:18 mínútu og er bara mjög sátt við það.  Markmiðið fyrir keppnina var að bæta tímann minn og það tókst. 

En lengi má gott bæta og ég er sko hvergi nærri hætt.  Ætla aftur í haust og gera enn betur þá.  Maður lærir alveg ótrúlega mikið á hverri keppni, hvað þarf að bæta í tækninni í hverri grein og hvar má gera betur.  Það er líka svo ótrúlega mikil stemmning í keppninni, og gaman að taka þátt í þessu.  

Sú sem vann mótið í kvennaflokki er ofurmennsk, og er fljótari en karlarnir í gegnum brautina en hún fór á tímanum 16:29 og felldi sitt eigið Íslandsmet um rúma mínútu. Úrslitin úr keppninni má sjá hér.

Ég er ekki búin að sjá millitímana mína en ég held að ég hafi bætt mig bæði í hjóli og róðri en hins vegar gekk mér ekki eins vel með niðurtog, fótalyftur og uppsetur og þar var um að kenna lélegri tækni.  Ég gerði nokkrar ógildar lyftur og það telur aldeilis sekúndurnar.  Armbeygjurnar voru betri en síðast en langt frá að vera nógu góðar samt.

Ég er á heimavelli þegar kemur að hlaupinu og hélt góðu tempói þar. 

Núna ætla ég að einbeita mér að þeim atriðum sem þarf að laga fyrir næstu keppni, bæta tæknina og auka hraðann í hverri grein.

 

Megrunarlausa daginn hélt ég svo hátíðlegan í gær með góðgæti úr besta bakaríi í heimi: Bakaríið við brúna , enda fannst mér ég eiga allt gott skilið eftir keppninaWink.

 

Myndir frá keppninni eru hér.

 

 

 


Með hnút í maga

Nú eru bara 24 tímar í Þrekmeistaramót og kvíðahnúturinn í mallanum stækkar með hverri mínútunni og er á leiðinni alveg upp í kok. 

Mér líður eins og í gamla daga þegar ég var að fara í erfitt próf í skólanum, alveg að farast úr stressi og búin að ímynda mér að allt hið versta geti gerst.  Að ég fótbrotni á brettinu, gubbi í róðrinum, falli í ómegin í uppstiginu, ég verði of lengi og þurfi að víkja úr brautinni með skömm.  Ég var miklu afslappaðri fyrir mótið í haust, en þá var ég líka að keppa í fyrsta skipti svo ég gerði í sjálfu sér engar kröfur til sjálfrar mín.  Þá vildi bara taka þátt og sjá hvernig mér gengi.  En nú vil ég gera betur en síðast, og ég verð svo svekkt út í sjálfa mig ef ég næ ekki því takmarki, og þá er maður bæði sökudólgur og fórnarlamb á sama tíma sem er ekki gott andlegt ástand Frown.  En á milli niðurfallskastanna reyni ég að hugsa á jákvæðum nótum og minni sjálfa mig á að aðalatriðið er að njóta þess að vera nógu hraust til að geta tekið þátt í svona keppni.  Því það eru auðvitað forréttindi að geta hreyft sig, og við sem göngum á báðum fótum jafn heilum pælum aldrei í því að fullt af fólki hefur ekki einu sinni þann kost að fara í ræktina og púla sökum fötlunar eða veikinda.  Þeir sem hreyfa sig aldrei og eru 100% heilbrigðir á sál og líkama ættu aðeins að pæla í þessu!! 

En á morgun ætla ég bara að taka Naglann á þetta alveg brjáluð Devil og gera mitt besta og aðeins betur ef það er það sem þarf....

 Góða helgi gott fólk!!


Spegill, spegill, herm þú mér....

Ég ráðlegg fólki sem er að gera heilsusamlegar lífsstílsbreytingar að henda vigtinni út í hafsauga.  Þrátt fyrir þessar predikanir freistast ég sjálf alltof oft og uppsker aldrei neitt nema svekkelsi enda er talan sem kemur upp á vigtinni aldrei sú rétta. 

Fitumælingaklípur, fötin manns, spegilinn og eigin líðan eru miklu betri mælikvarði á hvort árangur hafi náðst af öllu púlinu og hollustunni heldur en vigtarskömmin. 

Gott dæmi er reynsla mín í morgun en þá asnaðist ég einmitt upp á gamla vigtarjálkinn í Hreyfingu og var alveg viss um að nú væri kellingin orðin létt sem fiður.  En neineinei, þyngdin er í sögulegu hámarki og með þá tölu í hausnum var ég orðin flóðhestur sem trampaði á brettinu. 

Þegar heim var komið var mjónupilsið (rykfallið) dregið út úr fataskápnum, og stund sannleikans runnin upp.  Fyrir mánuði síðan komst ég ekki í þetta helv... pils nema að smyrja líkamann með smurolíu, fá svo kranabíl til að hysja það yfir afturendann, en hefði samt ekki getað rennt því upp. 

En viti menn! Í morgun passaði pilsið eins og flís við rass, þrátt fyrir að kellingin sé 5 kg þyngri en þegar það var keypt og notað sem mest.  Ekkert mál að renna upp og meira að segja smá bil frá maga að streng svo inn- og útöndun var gerleg. 

Af þessu má sjá að líkamsþyngd er algjörlega afstæð og helst engan veginn í hendur við útlit okkar.  

Þyngd getur rokkað dag frá degi og jafnvel frá morgni til kvölds.  Líkamsþyngd er háð ýmsum þáttum eins og vökvasöfnun í líkamanum, hvað var borðað yfir daginn, tíðahring, hægðum, vöðvamassa o.fl.  Fyrir okkur sem lyftum lóðum og vöðvamassi kominn í stað fitu er eðlilegt að þyngjast aðeins og tala nú ekki um ef stundaðar eru þungar lyftingar.  Því meiri vöðvamassi, því meiri hitaeiningum brennum við, hvort sem er í hvíld eða átökum.  Það hefur verið sýnt fram á að með því að bæta á sig 1,5 kg af vöðvamassa aukum við brennsluna um 120 hitaeiningar á dag, sem eru 3.600 hitaeiningar á mánuði!!  

Af hverju einblínum við (konur) svona mikið á einhverja tölu?  Hvaða andsk... máli skiptir hún fyrir líf manns og hamingju?  Þyngdin er ekki brennimerkt á ennið á okkur, það mun enginn senda okkur hæðnisbréf um þyngdina, né úthrópa okkur úti á götu.   

Er ekki mikilvægara að líða vel í líkama sínum, sáttur við sjálfan sig, í góðu formi, hraustur og heilbrigður frekar en að eltast við einhverja óskaþyngd?  Lífið er einfaldlega of stutt til þess! 


« Fyrri síða

Höfundur

Ragnhildur Þórðardóttir
Ragnhildur Þórðardóttir

Hér læt ég gamminn geysa um ýmislegt sem tengist hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og hollu mataræði í formi pistla og fróðleiks.  Mín lífsviðhorf eru að góð heilsa er gulli betri og að í hraustum líkama býr heilbrigð sál. 
Ég tek einnig að mér fjarþjálfun.

Allar upplýsingar um fjarþjálfun á www.ragganagli.com

Spurt er

Hvað gerirðu margar brennsluæfingar á viku?

Nýjustu myndir

  • front-plank-exercise
  • binge_barbie
  • sleep-deprived
  • phpwWI9BvAM
  • eating too much

Aðrir vaðlarar

Bækur

Góðar bækur

  • Bók: A Thousand Splendid suns
    Khaled Hosseini: A Thousand Splendid suns
    Frábær bók en jafnframt mjög átakanleg. Þurfti að loka henni nokkrum sinnum og jafna mig því lýsingarnar á heimilisofbeldinu voru einum of grafískar fyrir minn smekk.
    *****
  • Bók: Kite runner
    Khaled Hosseini: Kite runner
    Algjör snilld. Fjallar um tvo drengi í Afganistan í kringum 1970 áður en allt fór til fjandans þar í landi.
    *****
  • Bók: On beauty
    Zadie Smith: On beauty
    ***
  • Bók: Espresso tales
    Alexander McCall Smith: Espresso tales
    Framhald af 44 Scotland Street. Er að lesa hana núna.
  • Bók: 44 Scotland Street
    Alexander McCall Smith: 44 Scotland Street
    Gerist í Edinborg og þvílík nostalgía sem ég fæ við að lesa þessa bók enda kannast maður við alla staðina sem fjallað er um.
    ****
  • Bók: The time traveller's wife
    Audrey Niffenegger: The time traveller's wife
    Með betri bókum sem ég hef lesið. Falleg ástarsaga um mann og konu sem þurfa að díla við tímaflakk mannsins.
    ****
  • Bók: We need to talk about Kevin
    Lionel Shriver: We need to talk about Kevin
    Hugleiðingar móður fjöldamorðingja um áhrif uppeldis og erfða. Mjög athyglisverð lesning, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á "nature-nurture" deilunni.
    *****

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 68
  • Frá upphafi: 549063

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 65
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband