Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Nokkur góð bætiefni til að byggja upp vöðva.

 

Mysuprótín:  Toppar listann yfir vöðvabyggjandi bætiefni því það er mikilvægast í myndun prótína í líkamanum.  Mysuprótín er mjólkurprótín sem hefur hátt hlutfall BCAA amínósýra.  Mysuprótín frásogast hratt og skilar sér því hratt til vöðvanna til að byggja þá upp.  Mysuprótín innihalda einnig peptíð (lítil prótín) sem auka blóðflæði til vöðva.  Þess vegna er mælt með að fá sér mysuprótín strax að lokinni æfingu. 

Hvernig má hámarka áhrif þess? Taktu 20 g af mysuprótíni fyrir æfingu og 40 g innan 60 mínútna eftir æfingu.  Einnig má hafa í huga að taka 20 g af mysuprótíni um leið og maður vaknar til að hefja strax vöðvastækkun. 

 

Kreatín: Kreatín er myndað úr þremur amínósýrum: arginine, glycine, methionine.  Vísindalegar rannsóknir sýna að þeir sem taka kreatín bæta á sig vöðvamassa og bæta styrkinn svo um munar.  Kreatín virkar á marga vegu.  Í fyrsta lagi eykur það magn skjótrar orku í vöðvunum sem þarf til að framkvæma endurtekningar í lyftingum.  Því meira sem er til staðar af þessari skjótu orku því fleiri endurtekningar er hægt að gera með ákveðinni þyngd.  Það leiðir til að við verðum stærri og sterkari með tímanum.  Kreatín dregur líka meira vatn inn í vöðvafrumur, sem teygir á þeim og það stuðlar að auknum langtíma vöðvavexti.  Nýlega hafa niðurstöður rannsókna sýnt að kreatín eykur hlutfall af  IGF-I (insulinlike-growth factor) í vöðvum sem er mikilvægt fyrir vöðvavöxt.

Hvernig má hámarka áhrif þess?  Taktu 2-5 g af kreatíni með prótín sjeik fyrir æfingu.  Þetta hjálpar til að halda vöðvunum mettuðum af kreatíni og framleiðir skjóta orku sem er nauðsynleg til að klára fleiri endurtekningar.  Síðan skaltu taka 2-5 g með prótín sjeiknum eftir æfingu, því þá sjúga vöðvarnir kreatíníð hratt til sín.  Á hvíldardögum skaltu taka 2-5 g með morgunmatnum.    

 

BCAA: Hugtakið BCAA (branched chained amino acids) vísar til amínósýranna leucine, isoleucine og valine.  Þessar amínósýrur eru án efa þær mikilvægustu í viðgerð og byggingu vöðvavefs.  Leucine er mikilvægast af þessum þremur, því eins og rannsóknir sýna þá getur hún stuðlað að myndun prótína í líkamanum upp á eigin spýtur.  Það er samt betra að taka allar þrjár BCAA amínósýrurnar því þær vinna saman í ýmsum þáttum.  Til dæmis vöðvavexti, auka orku á æfingu, hindra kortisól framleiðslu (niðurbrjótandi hormón sem hamlar testósterón) og minni harðsperrur eftir æfingu. 

Hvernig má hámarka áhrif þeirra?  Taktu 5-10 g af BCAA með morgunmat, með prótínsjeik fyrir og eftir æfingu.  Veldu vöru sem inniheldur leucine í hlutfallinu 2:1 á móti isoleucine og valine.  Til dæmis ef þú tekur 5 g skammt þá ætti 2,5 g að vera úr leucine og 1,25 g úr isoleucine og 1, 25 g úr valine.

 

Beta Alanine/Carnosine:  Í líkamanum binst amínósýran Beta Alanine við amínósýruna Histidine og saman mynda þær carnosine.  Carnosine finnst í miklu mæli í Týpu II vöðvaþráðum, sem notaðir eru við sprengikraft líkt og lyftingar eða spretthlaup.  Rannsóknir sýna að vöðvar sem hafa hærra magn af carnosine hafa meiri styrk og úthald.  Carnosine virðist auka getu vöðvaþráða til að dragast saman með meira afli og þeir eru lengur að þreytast.  Nokkrar rannsóknir benda til aukningar í vöðvastyrk og krafti í íþróttamönnum sem taka Beta-Alanine.  Nýleg rannsókn sýndi að þeir sem tóku Beta-alanine samhliða kreatíni bættu á sig meiri vöðvamassa og misstu meiri líkamsfitu samanborið við þá sem tóku eingöngu kreatín.

Hvernig má hámarka áhrif þess?  Taktu 1 g af Beta-Alanine eða carnosine með máltíðum 3-4 sinnum á dag.

 

Nitur-oxíð (NO) bætiefni: Nitur-oxíð (NO) er mólekúl sem finnst í líkamanum og tekur þátt í margvíslegum ferlum.  Það ferli sem vekur áhuga líkamsræktarfólks er hæfni þess að víkka út æðar sem leyfir enn meira blóðflæði til vöðva og þar með fær hann aukið súrefni, næringarefni, vöðvabyggjandi hormón og vatn.  Þetta veitir okkur meiri orku á æfingu og vöðvinn verður "pumpaðri" og jafnar sig fyrr eftir átök.  NO bætiefni innihalda ekki nitur-oxíð heldur amínósýruna arginine sem er breytt í NO í líkamanum.  Rannsóknir hafa sýnt að vöðvastyrkur og vöðvastækkun eykst hjá þeim sem taka arginine.

Hvernig má hámarka áhrif þess?  Taktu NO bætiefni sem veitir 3-5 g af arginine.  Einnig skaltu hafa í huga að nota vöru sem inniheldur einngi citrulline, pycnogenol og ginseng sem hjálpa arginine við að auka NO í líkamanum.  Taktu NO bætiefni á morgnana fyrir morgunmat, 30-60 mínútum fyrir æfingu, beint eftir æfingu og 30-60 mínútum fyrir kvöldmat.  Best er að taka NO bætiefni án matar til að hámarka frásog þess.

 

Glútamín: Þessi amínósýra hefur verið á vinsældalistum líkamsræktarfólks um áratuga skeið því hún er lykilþáttur í virkni vöðva og er ein af þeim amínósýrum sem finnst mest af í líkamanum.  Glútamín kemur við sögu í fjölmörgum vöðvabyggjandi ferlum, til dæmis að auka vöðvavöxt með því að auka hlutfall leucine í vöðvaþráðum, hjálpar til við að minnka vöðvaniðurbrot og styrkir ónæmiskerfið, sem kemur í veg fyrir að við veikjumst og missum þar af leiðandi af æfingu.  Ef glútamín er tekið fyrir æfingu getur það minnkað vöðvaþreytu og aukið hlutfall vaxtarhormóna. 

Hvernig má hámarka áhrif þess?  Taktu 5-10 g af glútamíni á morgnana, fyrir og eftir æfingu og fyrir svefn.

 

ZMA:  ZMA er blanda af zink, magnesíum og B6 vítamíni.  Þetta er mikilvægt bætiefni því þeir sem æfa mikið skortir oft þessi steinefni sem eru mikilvæg til að viðhalda réttu hormóna hlutfalli í líkamanum og bætir svefninn sem er nauðsynlegt til að vöðvarnir nái að jafna sig.  Áköf þjálfun getur haft áhrif á magn testósteróns og IGF-i.  Ein rannsókn sýndi að þeir sem tóku ZMA yfir 8 vikna þjálfunartímabil juku magn testósteróns og IGF-i í líkamanum.  Hins vegar minnkaði testósterón og IGF-i hjá þeim sem tóku lyfleysu.  Aukið testósterón og IGF-i í líkamanum hefur gríðarleg áhrif á styrk og stærð vöðva.

Hvernig má hámarka áhrif þess?  Taktu ZMA 30-60 mínútum fyrir svefn án matar eða einhvers sem inniheldur kalk.  Með því að taka ZMA á tóman maga hámarkar frásog þess og nýtingu þess til að bæta gæði svefnsins.

 

 

 


Hugulsemi Tjallans meiri en góðu hófi gegnir

Jæja, afsakið þögnina. Þið hafið kannski haldið að Naglinn væri dáinn, hefði kafnað í eigin spiki. Nei nei, Naglinn er sprelllifandi og sparkandi. Naglinn ól manninn í Lundúnum um liðna helgi, og var því fjarri tækninni, en ekki fjarri ræktinni þó. Massaði nokkrar æfingar í ríkisræktinni í London. Það er alltaf jafn gaman að breyta um umhverfi og æfa á nýrri grund. Tjallinn er þó afskiptasamari en við frændurnir í norðri eigum að venjast. Naglinn lenti nefnilega í tveimur atvikum þar sem hugulsemi náungans náði út yfir öll velsæmismörk. Í fyrra skiptið kom örvasa gamalmenni að Naglanum þar sem verið var að massa neðri kviðinn (og ekki veitir af). Kallinn var c.a 18 kíló, en samt með lyftingabelti, og Naglinn velti fyrir sér nýtingu þess fyrir 5 kg lóðasveiflurnar. Hann sagði með yfirstéttar breskum hreim: " This is a very good ab exercise you are doing, but if you want a smaller waist, you shouldn't be doing them with a dumbbell, but rather focus on the repetitions". Naglinn hugsaði "Öööö já já, gamli kall !! Er ég með svona feitt mitti að þér ofbýður og getur hreinlega ekki orða bundist??" en beit í vörina, taldi upp að hundrað í huganum og sagði: "Thank you for the tip, but I prefer to do them with dumbbells". Í seinna skiptið var Naglinn að negla HIIT brennslu á þrekstiganum og tók lotur þar sem hraðinn var blastaður upp í hæstu mögulegu stillingu og svo hægari lotur á milli. Í lok hraðferðanna svindlaði Naglinn og hallaði sér fram á handriðið. Nota bene! iPodinn var á fullu gasi í eyrunum, Naglinn horfði í gólfið og einbeitti sér að verkefninu þegar allt í einu verður vart við hönd sem veifar Naglanum og svo er pikkað í öxlina. Þá stendur maður á fertugsaldri hjá þrekstiganum og Naglinn tekur iPod-inn úr öðru eyranu. Mannkvikindið segir (og aftur er um að ræða hreim sem Beta sjálf yrði stolt af): "You are doing your arms a disservice by leaning forward. You should really reduce the speed and try and stand up straight". Þetta korn fyllti mælinn hjá Naglanum hvað varðar athugasemdir í þessari annars agnarsmáu líkamsræktarstöð. Andsvar Naglans var því stutt og laggott "OK, thank you" og heyrnartólinu stungið aftur í eyrað og haldið áfram þar sem frá var horfið.... á handriðunum. Ætlaði sko ekki að gera þessum afskiptasama Breta til geðs að rétta úr mér. Gerði það bara þegar hann var horfinn sjónum. Fyrr má nú aldeilis bera hag náungans fyrir brjósti þarna í Norður London!!!

Hippopotamus

Jæja, það er þá orðið opinbert.  Naglinn er orðinn flóðhestur.  Er jafnvel að hugsa um að fá það skráð í símaskrána sem starfsheiti:  Ragga Nagli.......Flóðhestur. 

 

hippo%20(1)

Naglinn steig nefnilega upp á verkfæri djöfulsins í gærmorgun, og á stafræna skjánum blasti við tala sem Naglinn hefur ekki séð í tæpan áratug Angry.  Öllu verra en öll þessi kílógrömm, er að síðasta vígið er fallið, nú kemst Naglinn ekki lengur í víðu gallabuxurnar sínar, sem nota bene voru bjargvætturinn á mánudögum eftir sukk helgarinnar.  Semsagt Naglinn er búinn að sprengja af sér allar buxur úr skápnum, feitabollubuxurnar líka.  Nú klæðist Naglinn eingöngu víðum kjólum og leggings.  Eru búrkur í tísku? 

Nú finnst Naglanum vera komið gott af þessu off-season-i og myndi gjarnan vilja byrja að skera núna... en nei nei, það eru góðir 3 og hálfur mánuður eftir.  Hvar endar þetta eiginlega??  Naglinn verður kominn í offitumeðferð á Reykjalund áður en yfir lýkur.

Hösbandið varð fórnarlamb æðiskastsins sem var tekið yfir rassi í hjólbörum, bumbu girta í sokkana, og bingó handleggjum.  Hann tók þessu með stóískri ró, enda vanur að fá slíkar gusur yfir sig þegar Naglinn hefur vigtað sig.  Hann benti sinni heittelskuðu á að þetta væru líklega að mestu leyti vöðvar og vöðvum fylgir fita, sérstaklega þegar borðað er meira og brennsluæfingar minnkaðar. 

Naglinn veit þetta auðvitað allt saman Blush, en eftir mörg mögur ár er erfitt að sætta sig við stærri líkama.  En Naglinn verður að trúa að líkamssamsetningin sé að breytast.  Mataræðið er tandurhreint, svo það hlýtur bara að vera að þessi gríðarlegu þyngsli séu gæðakjötframleiðsla með lágmarksfituhlutfall.    


Söngur sigurvegarans

 

Þegar ég hugsa um að hætta, hugsa ég um hver mun standa við hliðina á mér á sviðinu. 
Mun ég geta sagt að ég hafi lagt harðar að mér en hún?

Þegar ég stend á sviði mun ég geta sagt að ég hafi þjarmað meira að sjálfri mér, að ég hafi haldið áfram þótt mig langaði að hætta, og að ég hafi aukið effortið þegar mig langaði að hníga niður. 

Það er þessi síðasta lota af skuldbindingu sem skilur sigurvegarana frá þeim sem lenda í 2. sæti. 

 

Ég mun æfa meðan aðrir fara út með vinum sínum.

Ég mun æfa þegar aðrir eru úti að borða á sínum uppáhalds veitingastað.

Ég mun æfa þegar aðrir eru að taka hvíldardag.

Ég mun æfa þegar aðrir eru að hanga með kærastanum sínum

Ég mun æfa meðan aðrir sofa.

Hvert andartak er sigur: 

Hvert skref á hlaupabrettinu.

Hvert sett.

Hver endurtekning.

Hver biti af mat.

Allt sem ég geri hefur tilgang.

 

Maturinn nærir líkamann.

Æfingarnar auðga andann

Lyftingarnar örva vöðvana

Bætiefnin styðja við heilsuna

Hvíldin byggir upp

 

Aldrei að hætta

Aldrei að gefast upp

Aldrei að segja "Ekki hægt" eða "Get ekki"

 

Sigurvegari verður fyrst að ögra sjálfum sér áður en hann getur ögrað öðrum.

Ég er mín eigin keppni.  Uppgjöf er ekki í boði.

 

 


L-karnitín

 

Amínósýran L- Karnitín hefur notið vaxandi vinsælda á undanförnum árum.  Hún hefur notuð í ýmsum tilgangi, m. a til að stuðla að vexti, auka orku og sem fitubrennsluefni.    

 

L-karnitín myndast í líkamanum í lifur og nýrum úr tveimur amínósýrum, lysine og methinione ásamt þremur vítamínum níasín, B6 vítamíni og C-vítamíni

Einnig fáum við hana úr fæðunni, en rautt kjöt (nautakjöt, lambakjöt) og mjólkurvörur eru auðug af L-karnitíni, einnig finnst nokkurt magn í avókadó en lítið er af því í öðru grænmeti og ávöxtum. 

 

 

Nautakjöt
 

L- Karnitín er mikilvægt við flutning fitusýra innan líkamans og þannig mikilvægt í að melta fæðu til orkumyndunar.  L-karnitín veitir vöðvum líkamans orku, t.d hjarta og rákóttum vöðvum.  Sjúklingar með kransæðasjúkdóma sem fá L-karnitín eiga oft auðveldara með að vinna og gera ýmsar æfingar. 

L-karnitín flytur fitusýrur á borð við tríglýseríð inn í frumur líkamans þar sem þær nýtast sem orka.  Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að dagleg neysla L-karnitíns getur dregið úr tríglýseríðum í blóði og þannig minnkað blóðfitumagn í líkmanum.  Þegar þessir sömu einstaklingar hætta síðan að taka L-karnitín eykst tríglýseríð magn í blóði aftur. 

Hátt magn tríglýseríða í líkamanum eru einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.  Rannsóknir hafa einnig sýnt að neysla á L-karnitíni eykur magn HDL-kólesteróls í blóði, en það er góða kólesterólið sem tekur þátt í vörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum. 

Keppnisfólk í íþróttum hefur í auknum mæli farið að neyta L-karnitíns í stórum skömmtum (2-4 g fyrir keppni) vegna þeirrar kenningar að L-karnitín geti byggt upp vöðva og aukið þrek.  Enn hefur þetta ekki verið rannsakað til hlítar en niðurstöður benda til að L-karnitín geti aukið þol íþróttamanna með því að auka virkni hjartans til að dæla meira magni af blóði og örva orkubirgðir þess. 
Einnig er talið að neysla L-karnitíns geti minnkað magn mjólkursýru sem myndast í vöðvum við áreynslu sem leiðir til að vöðvaúthald verður meira.   

 

 

baby-kitty-lifting-weights

 

L-karnitín hefur einnig verið vinsælt fyrir fólk í megrun, því neysla þess virðist draga úr hungri og máttleysi. 

Ekki eru þekktar aukaverkanir af neyslu L-karnitíns, jafnvel þó þess sé neytt í stórum skömmtum.  Algengustu skammtar eru 2-4 g klukkutíma fyrir æfingu. 


Naglinn deddar rör

Naglinn og hösbandið fóru á sýninguna Verk og vit í Laugardalshöllinni um helgina. Sem er ekki í frásögur færandi nema..... að þar var Loftorka með bás og þar stóð aðalfyrirsætan þeirra, Magnús Ver. Hann var að kynna getraunaleik sem gekk út á að giska á þyngd á steypuröri sem stillt var upp á básnum. Til þess að fá eitthvað viðmið um þyngdina tók Naglinn sig til og deddaði rörið. Magnús Ver hefur greinilega ekki búist við því að lufsan reyndi að lyfta steinsteypuröri í háhæluðum skóm og kjól, því hann sagði: "Ja hérna, djö&%#. ertu sterk. Það hefur engin kona lyft þessu röri." Eins og þið getið ímyndað ykkur þótti Naglanum ekki leiðinlegt að heyra þetta. Nú verður spennandi að vita hvað rörið er þungt í raun og veru en Naglinn giskaði á 65 kg.

Hvað er hreint mataræði?

 

Hvað er hreint mataræði?

Það er mjög einfalt í rauninni.  Kjarninn í hreinu mataræði er að neyta matar í sínu upprunalega ástandi, eða nálægt því.  Hreint mataræði er ekki megrun, heldur lífsstíll og leiðir til heilsu, vellíðan og fituminni líkama.    Þessi lífsstíll felur í sér val okkar á mat og hvernig við matreiðum hann.  Það er mun auðveldara að tileinka sér hreint mataræði en að fylgja megrunarkúrum þar sem hinum og þessum fæðuflokkum er sleppt og mataræðið er klippt og skorið.

Hér að neðan eru talin upp nokkur atriði sem mynda undirstöður í hreinu mataræði.

 

Litríkir ávextir og grænmeti:  Því litríkari, því ríkari af vítamínum og andoxunarefnum.  Haltu lönguninni í sætindi í skefjum með ferskum ávöxtum og grænmeti.  Allt grænmeti og margir ávextir eru flókin kolvetni.  

 

vegetables1

 

Heil grjón:  Einnig flókin kolvetni.  Líkaminn vinnur hægt úr þessum afurðum, sem þýðir að það tekur lengri tíma að melta þau.  Þess vegna helst insúlín magnið stöðugt sem aftur heldur líkamsfitunni í skefjum. 

 

Magurt prótín:  Magrir prótíngjafar auka brennsluna um næstum 30%.  Þau metta okkur meira en kolvetni, og því erum við södd lengur eftir máltíð sem inniheldur prótín ásamt kolvetnum, en ef við borðum eingöngu kolvetni.  Bestu prótíngjafarnir eru kjúklingabringa án skinns, fiskur, eggjahvítur, kalkúnn, nautakjöt, hreindýrakjöt, magrar mjólkurvörur.

kjúklingabringur

 

Vatn:  Með því að drekka nóg af vatni daglega skolum við burt eiturefnum úr líkamanum og hjálpum honum að nýta góða "stöffið".

 

Forðumst:

Unnar matvörur

Hvítt hveiti og sykur

Mettaða fitu og transfitu

Allt djúpsteikt

Sykraða gosdrykki og ávaxtasafa

 

deep fried chicken

 


Úldinn Nagli

Átti miður skemmtilegt móment í ræktinni í morgun. 

Eftir að hafa djöflast á staurunum í beygjum, deddi, hacki og tilheyrandi hamagangi var planið að taka 20 mín brennslu. 

Kjellingin fer að krönunum í Laugum til að væta elektróðurnar á sínum heittelskaða púlsmæli en krafturinn í krananum bleytti allt draslið, þar á meðal strappann sem fer utan um bakið svo hann varð rennblautur.  Við það gaus upp þessi líka viðbjóðslegi fnykur, við erum ekki að tala um neina venjulega svitalykt, nei nei.  Við erum að tala um að rauða málningin á veggjum World Class flagnaði og nærstaddir féllu í ómegin.  Prófið að vera í sömu sokkunum í viku, bleyta þá svo, setja á ofninn í nokkra daga og þið eruð sirka nálægt óbjóðnum sem mætti mér í morgun.  Mánaðargömul grásleppa lyktar betur.  Það hafði greinilega farist fyrir hjá Naglanum að undanförnu að þvo strappann á púlsmælinum.  
Ekki frá því að hafa bara komist í smá vímu þarna eitt augnablik.  

En nú voru góð ráð dýr.
Ekki var hægt að sleppa brennslunni enda "operation 10 days" í fullum gangi. 
Ekki er heldur hægt að brenna án púlsmælis, það er eins og að tannbursta sig með engu tannkremi. 

Niðurstaðan varð sú að láta sig bara hafa það og vona að aðrir gestir stöðvarinnar þennan fimmtudagsmorgun aprílmánaðar væru allir með kvef, eða svo helköttaðir að þeir þyrftu ekkert að brenna.  Naglinn klifraði upp á þrekstiga þar sem nærliggjandi stigar voru auðir. Naglinn vonaði heitt og innilega að enginn myndi koma á stigana sitt hvoru megin við í þessar aumu 20 mínútur. 
Nei, Naglanum varð ekki að ósk sinni, og ekki virtist liðið vera með kvef heldur. 
Fjórir.... já fjórir aðilar komu á stigana tvo sem stóðu lausir sitt hvoru megin við, og hver einn og einasti tróð marvaðann í innan við eina mínútu áður en þeir hættu skyndilega og færðu sig á aðra stiga. 

Við skulum ekki ræða hvað þetta fólk hefur hugsað um Naglann:  "Skítakleprapakk sem ekki baðar sig"

Já þetta var ekki besta móment Naglans, og 20 mínútur hafa aldrei liðið eins hægt.


Lítill skurður...bara pínulítill

Naglinn er í átaki.

Eftir rúma viku eru Naglinn og hösbandið að fara í afmælisbrjálæði á erlendri grund, nánar tiltekið í fyrrum höfuðborg heimsins Lundúnum. 

Naglinn keypti sér reyndar nýjan kjól fyrir veisluna, sem er sérstaklega víður frá brjóstum niður á hné, felur akkúrat þau 70% af líkamanum sem eru ekki fyrir börn og viðkvæma.  

Rassinn og bumban eru komin út fyrir öll velsæmismörk, það er dýrt að borga fyrir tvö sæti í flugvél, og það er ekki gaman að afmælisgestir uppnefni mann Heffalump eftir veisluna. 

heffalump

Þess vegna byrjaði Naglinn í míní - skurði á mánudaginn.  Það er auðvitað ekki hægt að gera nein kraftaverk á 10 dögum, en vonandi losnar aðeins um vömbina og að eitthvað af lýsinu leki. 

Svo nú er kellingin búin að hreinsa til í mataræðinu, kötta aðeins á kolvetnin og bæta í cardio-ið.  Vonandi skilar þetta einhverjum árangri.

Svona stuttur skurður ætti ekki að hafa mikil áhrif á vöðvauppbyggingarferlið, en planið er að hoppa aftur í það prógramm um leið og gleðinni í Lundúnaborg lýkur. 


Gamla góða Lýsið

Lýsi er líklega það bætiefni sem mest er neytt af á Íslandi.  Að meðaltali tekur hver Íslendingur um 3 desilítra af lýsi á ári og er það langmesta neysla í heiminum. 

lýsi

Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á gagnsemi lýsis gagnvart hinum ýmsu sjúkdómum, og þar hafa Omega - 3 fitusýrurnar verið í aðalhlutverki.  Árið 1970 fóru danskir læknar að skoða eskimóa á Grænlandi, en lengi hafði verið vitað að tíðni hjarta- og æðasjúkdóma væri mun lægri hjá Grænlendingum borið saman við t.d Dani, þrátt fyrir mikla fituneyslu.  Það kom í ljós við rannsókn á mataræði eskimóanna að þeir neyttu mikillar fiskifitu.  Athygli Dananna beindist fljótlega að Omega - 3 fitusýrunum í fiskifitunni, og þá helst DHA og EPA sem eru ómettaðar fitusýrur.  Rannsóknir á DHA og EPA hafa leitt margt merkilegt í ljós. 

Flestir vísindamenn eru farnir að hallast að ótvíræðum jákvæðum áhrifum lýsisneyslu á hjarta- og æðasjúkdóma.  Annars vegar getur lýsi haft jákvæð áhrif á samsetningu blóðfitunnar með því að lækka hlutfall tríglýseríðs og kólesteróls í blóði og dregið þannig úr æðakölkun.  Hinsvegar hefur lýsi áhrif á prostaglandínframleiðsluna og þannig um leið á storknunareiginleika blóðsins. 

Allt frá 18. öld hefur lýsi verið gefið við liðagigt með góðum árangri.  Lýsi virðist hægja á framgangi og einkennum liðagigtar en læknar ekki sjúkdóminn.  Omega - 3 fitusýrur breyta hlutfalli prostaglandína í líkamanum þannig að minna myndast af bólgumyndandi prostaglandínum. 

Lýsi dregur einnig úr einkennum á IgA nephropathy, sem er algengur nýrnasjúkdómur. 
Nýlegar rannsóknir hafa jafnframt sýnt fram á að regluleg neysla lýsis lækkar blóðþrýsting hjá fólki með of háan blóðþrýsting. 

Hákarlalýsi hefur verið töluvert notað á Norðurlöndum til að hraða græðslu sára og styrkja ónæmiskerfið og þar með draga úr hættunni á alls kyns sýkingum.  Í hákarlalýsi er mikið af svokölluðum alkoxýglýserólum, en þau hafa verið notuð sem hjálparmeðferð við geislameðferð til að draga úr hliðarverkunum hennar, svo sem vefjaskemmdum.

hákarl

 

Auk Omega-3 fitusýranna inniheldur lýsi bæði A- og D- vítamín.  Ekki þarf að hafa áhyggjur af of stórum skömmtum af lýsi hjá fullorðnum en komið hafa fram D-vítamín eitrunareinkenni hjá börnum sem hafa fengið AD-vítamíndropa og lýsi samtímis.

 

Nýlega hafa einnig komið fram rannsóknir sem sýna að 2,000 - 4,000 mg af EPA og DHA á dag, hvort sem er úr fiski eða með bætiefnum, getur bætt árangur í íþróttum.  Bætingar bæði í styrk og þoli hafa einnig komið fram í rannsóknum.  Hjá þeim íþróttamönnum sem prófaðir voru komu bætingar fram í auknum þyngdum í bekkpressu, meiri stökkkrafti í hástökki og langstökki, bættum hlaupatíma og minni bólgum í vöðvum.

Rannsakendur geta sér til um að þessar bætingar í íþróttum megi rekja til jákvæðra eiginleika EPA og DHA.  Þessir eiginleikar eru m. a framleiðsla vaxtarhormóna, bólgueyðandi virkni, aukin súrefnisupptaka, betri insúlínviðbrögð í frumuhimnum og blóðþynnandi áhrif.  Einnig hefur regluleg neysla EPA og DHA áhrif á að súrefni og næring flyst fyrr til vöðva og stuðla þannig að því að líkaminn þarf styttri tíma til að jafna sig eftir erfiðar lotur af æfingum.

 

 

Næsta síða »

Höfundur

Ragnhildur Þórðardóttir
Ragnhildur Þórðardóttir

Hér læt ég gamminn geysa um ýmislegt sem tengist hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og hollu mataræði í formi pistla og fróðleiks.  Mín lífsviðhorf eru að góð heilsa er gulli betri og að í hraustum líkama býr heilbrigð sál. 
Ég tek einnig að mér fjarþjálfun.

Allar upplýsingar um fjarþjálfun á www.ragganagli.com

Spurt er

Hvað gerirðu margar brennsluæfingar á viku?

Nýjustu myndir

  • front-plank-exercise
  • binge_barbie
  • sleep-deprived
  • phpwWI9BvAM
  • eating too much

Aðrir vaðlarar

Bækur

Góðar bækur

  • Bók: A Thousand Splendid suns
    Khaled Hosseini: A Thousand Splendid suns
    Frábær bók en jafnframt mjög átakanleg. Þurfti að loka henni nokkrum sinnum og jafna mig því lýsingarnar á heimilisofbeldinu voru einum of grafískar fyrir minn smekk.
    *****
  • Bók: Kite runner
    Khaled Hosseini: Kite runner
    Algjör snilld. Fjallar um tvo drengi í Afganistan í kringum 1970 áður en allt fór til fjandans þar í landi.
    *****
  • Bók: On beauty
    Zadie Smith: On beauty
    ***
  • Bók: Espresso tales
    Alexander McCall Smith: Espresso tales
    Framhald af 44 Scotland Street. Er að lesa hana núna.
  • Bók: 44 Scotland Street
    Alexander McCall Smith: 44 Scotland Street
    Gerist í Edinborg og þvílík nostalgía sem ég fæ við að lesa þessa bók enda kannast maður við alla staðina sem fjallað er um.
    ****
  • Bók: The time traveller's wife
    Audrey Niffenegger: The time traveller's wife
    Með betri bókum sem ég hef lesið. Falleg ástarsaga um mann og konu sem þurfa að díla við tímaflakk mannsins.
    ****
  • Bók: We need to talk about Kevin
    Lionel Shriver: We need to talk about Kevin
    Hugleiðingar móður fjöldamorðingja um áhrif uppeldis og erfða. Mjög athyglisverð lesning, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á "nature-nurture" deilunni.
    *****

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 549064

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 66
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband