Mannskepnan er bara vaninn.

 

Íþróttamennska Naglans á hinum yngri árum var ekki glæsileg. 
Fimleikaferillinn varð ekki langur, splitt og spíkat var iðkað í einungis tvö ár, frá 5-7 ára.  
Upp úr 10 ára stundaði Naglinn handbolta í nokkur ár, með hangandi hendi þó sem er ekki vænlegt til árangurs í þeirri íþrótt. 
Rétt fyrir fermingu byrjuðu feðginin í hestamennsku, en Naglinn flosnaði upp úr því þegar gelgjan náði hámarki og sætir strákar og tískufatnaður urðu mikilvægari. 
Eftir það var skólaleikfimin eina hreyfingin, og þegar komið var í menntaskóla var iðulega skrópað í leikfimi og frekar farið á kaffihús í sígó.

 

Þegar horft er í baksýnisspegilinn kemur Naglanum á óvart að gamla stellið hafi leyft krakkakvikindinu að hætta í þessum íþróttum án þess að fundið væri annað sem gæti vakið áhuga.  Það vantaði meiri hvatningu til að stunda íþróttir af einhverri alvöru. 

Naglinn hætti reyndar að læra á píanó en það var vegna þess að kennarinn bað um það enda gekk þetta vægast sagt illa, Naglinn er heyrnarlaus á tóneyrunum og taktlaus með öllu. 

Hins vegar, varðandi íþróttaiðkun þá geta allir stundað íþróttir við sitt hæfi, og það er mikilvægt að finna íþróttagrein sem hentar hverjum og einum.  Einnig er mikilvægt að börn og unglingar fái mikla hvatningu heima fyrir um að standa sig vel í greininni og að þeim sé fundin önnur íþróttagrein ef þau vilja hætta að æfa.

Hreyfing barna og unglinga er ekki einungis heilsubætandi, heldur hefur hún ákveðið forvarnargildi þegar kemur að reykingum og áfengisdrykkju, og að tilheyra hópi er mikilvægt fyrir félagsþroska.

Það er samt annar þáttur við íþróttaiðkun barna og unglinga sem Naglinn hefur mikið velt fyrir sér.  Það er að börn og unglingar venja sig á reglulega hreyfingu og sá vani fylgir þeim út allt lífið. 
Ein góð vinkona Naglans kom eitt sinn með áhugaverða ábendingu.  Hún var að reyna að koma sér af stað í ræktinni en fannst erfitt að koma hreyfingunni inn í hið daglega líf. 
Hún sagði að maður sinn hefði stundað fótbolta alla sína hunds og kattar tíð og fyndist ekkert tiltökumál að skella sér í ræktina 5-6 sinnum í viku.  Fyrir honum væri hreyfingin orðin svo eðlilegur hluti af lífinu. 

Þetta er akkúrat það sem Naglinn er alltaf að prédika yfir lýðnum: að gera hreyfingu jafn sjálfsagðan hluta af hinu daglega lífi og að tannbursta sig.  Þá hættir hreyfingin að verða kvöð, og eitthvað sem "þarf" að gera og verður hugsunarlaus vani. 

Mannskepnan er jú ekkert nema vaninn, og þeir sem venja sig á reglulega hreyfingu strax í barnæsku líður illa ef þeir hreyfa sig ekki, alveg eins og manni líður illa ef maður tannburstar sig ekki eða baðar sig ekki.  Þá er daglega rútínan úr skorðum.

 

Það tekur tíma að koma hreyfingu upp í vana, og sérstaklega fyrir þá sem eru komnir af léttasta skeiði getur það verið mjög erfitt.  En allt sem við endurtökum dag eftir dag, viku eftir viku kemst að lokum upp í vana, það er því mikilvægt að bíta á jaxlinn fyrstu mánuðina og vera harður við sjálfan sig. 
Lífið verður svo miklu betra þegar við hreyfum okkur reglulega. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr heyr. Svo algjörlega sammála

Palli (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 12:48

2 identicon

hæ ég hef nú aldrei skrifað hér áður en rambaði inn á þessa síðu held ég í október í fyrra og hef lesið hana held ég á hverjum degi síðan. Þú ert svo mikill innblástur fyrir aðra til að æfa að það er með engu lagi líkt. Mér langar alltaf þegar ég les þessa síðu og sjá hvað þér gengur vel í ræktinni að fara beint að pumpa og brenna.. :D   ég er allavega ekki ein af þeim sem vill ekki snerta lóðin og taka hrikalega á því....

það er "fjarlægur" draumur hjá mér að keppa einhvern tíman í fitness... á mjög langt í land er 25 kílóum of þung en æfi samt alltaf vel. bara finnst svo gott að borða :þ kanski að draumurinn verði að veruleika einhvern tíman

 svo að lokum með færsluna hér að ofan þá legg ég mjög mikla áherslu á því að sonur minn æfi íþróttir og hafi gaman af því en ekki að það sé skylda - æfa það sem manni finnst skemtilegt og hefur áhuga á.

takk fyrir síðuna

tryggur lesandi :) (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 12:55

3 Smámynd: Ragnhildur Þórðardóttir

Sæl tryggur lesandi, takk fyrir að kíkja í heimsókn .  Það er alltaf svo gaman að kynnast betur lesendum síðunnar.  Já, okkur finnst öllum voðalega gott að borða og það er yfirleitt ljónið í veginum fyrir því að kílóin hypji sig.  Það hefur alltaf reynst mér best að takmarka alla græðgi og sukk við einn dag eða eina máltíð þar sem allt er leyfilegt.  Þess á milli verð ég að skammta mér, því ég kann mér ekki magamál ef aðgangur að mat er óheftur .  Við þurfum öll að læra inn á okkar veikleika og reyna að bæta þá eða allavega halda þeim í skefjum. 

Frábært að þú styðjir son þinn í íþróttamennsku ,  það er svo nauðsynlegt veganesti fyrir lífið. 

Gangi þér vel á þinni braut.  Maður fær kannski að fylgjast með ??

Ragnhildur Þórðardóttir, 18.7.2008 kl. 13:18

4 identicon

Hljómar kunnuglega

Frábærir pistlar hjá þér og þvílík hvatning að lesa um árangur þinn, hugleiðingar og fróðleik.

Knús

Mína (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 18:26

5 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Ég er að mörgu leiti sammála þér, en hef rekið mig á vandamál með íþróttaiðkun barna og það er að gert er ráð fyrir að allri krakkar séu eins og vilji allir keppa og vinna. Ég á dóttir sem hefur verið í tónlistinni og tel ég það ekki síðra en íþróttir. Hún vildi líka fara í körfubolta, en þar sem hún hafði ekki tíma til að stunda það nema 1-2 í viku, vegna tónlistarnámsins sem hún setti í forgang, þá gat hún ekki verið með í liðinu.Það væri fint ef til væru íþróttafélög sem væru líka fyrir þá sem eru með til að hafa gaman. Ekki endilega til að vera best. Þessi dóttir mín er þannig byggð að ég gerði mér fljótlega grein fyrir mikilvægi hreyfingar fyrir hana, en ekkert kom til greina nema körfubolti sem gekk ekki upp. Eg reyndi þá að fá hana með í líkamsræktarstöðina,sem hún var til í, en þar var bannað fyrir krakka að æfa. Nú vildi ég ekki að hún væri í lóðunum, því hún var að vísu hætt að vaxa 12 ára, en mér fannst nóg að hún færi á þolvélarnar. Það var ekki hægt, svo hún sat uppi með leikfimnina í skólanum og ekkert annað, sem ekki dugði henni.

Eg er alveg sammála þér í að það er nauðsynlegt að venja börn við hreyfingu. Samt held ég að þetta hafi meira með áhuga að gera en vana. Það eru mörg dæmi um afreksíþróttamenn sem hafa hætt að hreyfa sig þegar keppni lauk, einfaldlega vegna þess að þeir sáu ekki tilganginn. Svo er fólk eins og þú sem byrjaðir, skilst mér, eftir að þú varst fullorðin.

Ég held að ef við venjum krakkana á að taka bílinn (keyra þau) í stað þess að labba, koma þau síður til með að hreyfa sig í hinu daglega lífi. Ef maður til dæmis venur sig á að taka stræto í stað þess að keyra, fær maður mun meiri hreyfingu, og labbar maður á næstu stoppustöð í stað þess að bíða í 10 mínútur, fær maður ennmeiri hreyfingu. Labbar maður upp stigan í stað þess að panta ferðaþjónustu öryrkja (lyftuna) lagast þolið líka. Þetta er allt hreyfing sem tekur ekki tíma eins og líkamsrækitin gerir og yfirleitt er það skortur á tíma sem fólk setur fyrir sig þegar líkamsrækt er ekki sett í forgang.

Ásta Kristín Norrman, 20.7.2008 kl. 21:36

6 Smámynd: Ragnhildur Þórðardóttir

Mína! Já, þú ættir að kannast við þessa athugasemd, hún kemur nefnilega frá þér mín kæra.

Ásta! Ég er svo hjartanlega sammála þér, það hafa ekki öll börn áhuga á atvinnumennsku og keppni. Það er auðvitað nauðsynlegt að rækta metnað og keppnisskap meðal barna en það má ekki verða hindrun fyrir þeirra íþróttamennsku. Það mætti kannski koma upp hálfgerðum "áhugamanna" flokkum í íþróttafélögunum til þess að hvetja þau áfram í hreyfingunni en með minni áherslu á keppni og afrek.

Ragnhildur Þórðardóttir, 21.7.2008 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ragnhildur Þórðardóttir
Ragnhildur Þórðardóttir

Hér læt ég gamminn geysa um ýmislegt sem tengist hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og hollu mataræði í formi pistla og fróðleiks.  Mín lífsviðhorf eru að góð heilsa er gulli betri og að í hraustum líkama býr heilbrigð sál. 
Ég tek einnig að mér fjarþjálfun.

Allar upplýsingar um fjarþjálfun á www.ragganagli.com

Spurt er

Hvað gerirðu margar brennsluæfingar á viku?

Nýjustu myndir

  • front-plank-exercise
  • binge_barbie
  • sleep-deprived
  • phpwWI9BvAM
  • eating too much

Aðrir vaðlarar

Bækur

Góðar bækur

  • Bók: A Thousand Splendid suns
    Khaled Hosseini: A Thousand Splendid suns
    Frábær bók en jafnframt mjög átakanleg. Þurfti að loka henni nokkrum sinnum og jafna mig því lýsingarnar á heimilisofbeldinu voru einum of grafískar fyrir minn smekk.
    *****
  • Bók: Kite runner
    Khaled Hosseini: Kite runner
    Algjör snilld. Fjallar um tvo drengi í Afganistan í kringum 1970 áður en allt fór til fjandans þar í landi.
    *****
  • Bók: On beauty
    Zadie Smith: On beauty
    ***
  • Bók: Espresso tales
    Alexander McCall Smith: Espresso tales
    Framhald af 44 Scotland Street. Er að lesa hana núna.
  • Bók: 44 Scotland Street
    Alexander McCall Smith: 44 Scotland Street
    Gerist í Edinborg og þvílík nostalgía sem ég fæ við að lesa þessa bók enda kannast maður við alla staðina sem fjallað er um.
    ****
  • Bók: The time traveller's wife
    Audrey Niffenegger: The time traveller's wife
    Með betri bókum sem ég hef lesið. Falleg ástarsaga um mann og konu sem þurfa að díla við tímaflakk mannsins.
    ****
  • Bók: We need to talk about Kevin
    Lionel Shriver: We need to talk about Kevin
    Hugleiðingar móður fjöldamorðingja um áhrif uppeldis og erfða. Mjög athyglisverð lesning, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á "nature-nurture" deilunni.
    *****

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 8
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 548851

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband