Flatulence

Naglinn lenti í óskemmtilegu atviki í ræktinni í gær Frown

Var að massa beygjurnar og þar sem ég er í miðju þungu setti þá fer prótínsjeikinn frá því um morguninn að gera óþægilega vart við sig.  Ekki hjálpaði til að vera með lyftingabelti reyrt inn að rifbeini og að sitja á hækjum sér með hlassið á herðunum og allt loft þrýstist niður í þarmana.  Án þess að neinum vörnum yrði komið við var afleiðingin heiftarlegur viðrekstur með tilheyrandi óhljóði.

Að sjálfsögðu vakti þetta atvik óskipta eftirtekt nærstaddra, bæði hjá þeim sem voru á bretti og í salnum enda hávaðinn vel yfir 60 decibelin, og varð starsýnt á mig en ég reyndi að halda kúlinu og lét sem ekkert væri og kláraði settið en blóðroðnaði auðvitað af skömm ofan á áreynsluna svo andlitið fékk á sig fjólubláan tón Blush.

Ég hef aldrei óskað mér jafn heitt að geta gert mig ósýnilega.

Veit einhver hvar maður getur fengið nýtt andlit??  Þá kannski get ég látið sjá mig aftur í ræktinni.


Et og andet

Jæja!! Bara 10 dagar eftir af 3 vikna "Operation: í kjólinn 15. September".  Enginn nammidagur og hard core mataræði í þrjár vikur er svosem ágætis undirbúningur fyrir það sem koma skal fyrir fitnessmótið í nóvember þegar sultarólin verður þrengd inn að beini og enginn nammidagur í 6 vikur.

Endurheimti hana Jóhönnu mina aftur sem lyftingafélaga á mánudaginn var og við mössuðum brjóst saman, enda ekki annað hægt þegar maður æfir með Íslandsmeistara í bekkpressu kvenna.  Enda er ég með harðsperrur frá annarri vídd í brjóstinu og komið vel á þriðja dag í sperrum.

Ég er að taka aðeins annan vinkil á brennsluna á morgnana núna og farin að taka lotur af plyometrics æfingum á milli spretta á bretti eða skíðavél.  Er að leggja sérstaka áherslu á uppástigið í plyometrics fyrir Þrekmeistarann í október.  Svo þarf kellingin að fara að spýta í sigggróna lófana og æfa helv....armbeygjurnar.  Það er engin hemja hvað mér finnst þessi æfing leiðinleg og erfið, eins og ég hef gaman af líkamlegu erfiði að þá líkar mér hreinlega illa við armbeygjur.  En það þýðir ekkert að grenja, heldur alltaf að sækja á brattann því eins og ég hef margoft sagt að þá er auðveldasta leiðin, leiðin til uppgjafar.

 

Góðar stundir!


Enjoy what you do and do what you enjoy

Dietpic

Sálfræðingar hafa lengi rannsakað hlutverk viðhorfa og skoðana sem forspá um ástundun reglulegrar hreyfingar.

Eftirfararandi skoðanir og viðhorf hafa komið fram í langflestum rannsóknum:

Félagslegur ávinningur hreyfingar: Sú skoðun að hreyfing sé ánægjuleg og þau félagsleg tengsl sem henni fylgja eru talin mikilvæg.  Ein rannsókn skoðaði viðhorf skokkara og þeirra sem ekki stunduðu skokk.  Þeir sem stunduðu ekki skokk sögðu að slík iðja krefðist of mikils sjálfsaga, og trúðu ekki á jákvæð áhrif og ánægju skokks.

Gildi eigin heilsu: Margir æfa af öðrum ástæðum en sér til heilsubótar, til dæmis fyrir ákveðna íþrótt, fitness, maraþon, kraftlyftingar o.fl.  En sú skoðun að heilsa og hreysti séu mikilvæg spilar samt ákveðið hlutverk í forspá um hvort viðkomandi stundi hreyfingu eða ekki.

Ávinningur hreyfingar: Þeir sem hreyfa sig reglubundið skora vanalega hærra á skölum sem mæla gildi hreyfingar fyrir heilsu, ánægju af hreyfingu og skora lægra á skölum sem mæla óþægindi og óánægju með ástundun hreyfingar.

Hindranir fyrir ástundun hreyfingar: Það eru ýmsir þættir sem koma í veg fyrir að fólk byrji að stunda reglubundna hreyfingu.  Þar eru mest áberandi þær skoðanir að hreyfing sé tímafrek, of langt í burtu, of dýr og óþægileg upplifun af hreyfingu.

 

Það vekur vissulega athygli að þrátt fyrir almenna vitneskju um að regluleg hreyfing skili sér í betri heilsu þá virðist sú vitneskja ekki skipta öllu máli í forspá um ástundun hreyfingar.  Ánægjuleg upplifun af hreyfingu er mun sterkari þáttur í að spá fyrir um hvort einstaklingur stundi hana reglulega.  Óþægileg upplifun og óánægja er algengasta ástæða fyrir uppgjöf.

 

Skilaboðin eru því skýr: Finnið ykkur hreyfingu sem ykkur þykir skemmtileg!!

 


Nokkrar gómsætar hugmyndir fyrir kjúllann

Uppskriftahornið fékk svo góðar viðtökur að ég ákvað að skella inn fleiri hugmyndum að ljúffengu hollmeti svona rétt fyrir helgina.

Kjúklingabringur án skinns eru fitulítil og prótínrík fæða og ein sú besta sem við hollustuhákarnir komumst í.  Bringur eru líka svo ansi hentugar og fljótlegar í eldun, það má baka þær í ofni, henda á grillið eða í Foreman grillið.

En þurr kjúklingabringa er álíka gómsæt og ljósritunarpappír og því er ekki úr vegi að skella á lesendur nokkrum hugmyndum að hvernig má útbúa djúsí kjúklingabringur án þess að fórna hollustunni.

Hægt er að leika sér með ýmis konar krydd til að fá fram bragð frá hinum ýmsu heimshornum.  Það eru til margar gerðir af hollum kryddum án salts, t.d frá Pottagöldrum eru Tandoori, Arabískt krydd, Karrý og Karrý de luxe, chilli öll án salts og msg.  Svo að sjálfsögðu eru Basilíka, Oreganó, Engifer, Kóríander, Timjan, Hvítlauksduft, laukduft og önnur jurtakrydd öll án salts og msg.

Svartur pipar er ómissandi og einnig er hægt að fá saltlausan sítrónupipar (Salt-free Lemon Pepper) frá McCormick.

 

Sinnep-það eru til ótal afbrigði af sinnepi í stórmörkuðum, t.d sinnep með hvítum pipar, hvítlaukssinnep, gamla góða dijonið, sætt sinnep.....

1 msk smurt yfir bringuna og bakað í ofni eða á grilli.

 

Tómatpúrra hrærð út með smá slettu af ólífuolíu (má sleppa) og Tandoori kryddi frá Pottagöldrum.

Smurt yfir bringuna og best bakað í ofni.  Þegar hún kemur heit út úr ofninum má setja 1-2 sneiðar af 11% osti yfir eða eina sneið af sojaosti sem svo bráðnar ofan í tómatgumsið.... Jammí.  Stundum hita ég ananas með í ofninum og brytja svo bæði kjúllann og ananasinn (vá erfitt orð) út í salat.

 

Teriyaki sósa: 1 msk sett í plastpoka með bringunni og geymt í ísskáp í 1-2 klst.  Snilld að skella svo í Foreman grillið. 

Ostrusósa: 1 msk smurt á bringuna áður en sett í ofn eða á Foremaninn.

Hvoru tveggja ljúffengt með hýðishrísgrjónum og brokkolí.

BBQ sósa: 1 msk smurt á bringuna og skellt á grillið.

Athugið að það er sykur og salt í þessum sósum en þegar notað er svona lítið magn á það ekki að koma að sök fyrir hinn venjulega Jón.

 

 

Góðar marineringar:

 

1)

Sletta af ólífuolíu (Extra virgin)

Pressað hvítlauksrif

Oggu pínu sojasósa c.a 1-2 tsk (passa saltið gott fólk)

Hellingur af svörtum pipar

Pískað saman

Bringan sett í nestispoka og maríneringu hellt yfir og geymt í ísskáp í c.a 4-6 klst.

 

2)

Sletta af ólífuolíu

Hellingur af svörtum pipar

Hellingur af Salt free sítrónupipar

Pískað saman

Bringan sett í nestispoka og maríneringu hellt yfir og geymt í ísskáp í c.a 4-6 klst.

 

3)

Sletta af ólífuolíu

1 tsk sinnep

Sletta af sojasósu

Svartur pipar

Bringan sett í nestispoka og maríneringu hellt yfir og geymt í ísskáp í c.a 4-6 klst.

 

4) Hreinn ávaxtasafi t.d Trópí hellt yfir bringuna í nestispoka og geymt í ísskáp c.a 1-2 klst.

 

Njótið helgarinnar gott fólk, þið eigið það skilið.

 

 

 

 

 

 

 


Góð saga

Hösbandið var erlendis um liðna helgi sem er ekki í frásögur færandi nema að hann ákvað að gleðja tilvonandi spúsu sína með að kaupa handa henni tímarit. Sökum ofurálags ríkissjóðs á myndskreyttar þunnar sneiðar af tré telst slíkt sem bruðl á heimili Naglans og aðeins fjárfest í slíkum munaði á erlendri grund þar sem ríkir meiri skilningur yfirvalda á afþreyingu fyrir almúgann. Þegar minn tilvonandi kemur að afgreiðsluborðinu fer hann að hugsa að ef afgreiðslukonan vissi að nýjustu garðarnir í Bo bedre og Design i Danmark er fyrir mig sjálfan en helbuffaða steratröllið á Muscle and Fitness blaðinu er lesefni konu minnar þá lít ég út eins og rammsamkynhneigður í bókabúðinni í samanburði við kvonfangið. Og þetta kaupir þessi elska alveg sjálfviljugur fyrir konuna sína, hálfnakta og pumpaða Ameríkana með Army cut og bicepa á stærð við meðal læri.

Ommiletta kaupfélagsstjórans

Lítill fugl læddi að mér þeirri hugmynd að setja inn á síðuna uppskriftir að hollmeti.  Ég brást hin skjótasta við enda tek ég öllum uppástungum um efni á síðuna fegins hendi.  Hver veit nema þetta verði vikulegur þáttur hér á síðunni Wink.

Hér deili ég með ykkur lesendur góðir uppskrift að vinsælum kvöldmat / hádegismat Naglans.  Svo vinsæll hefur þessi réttur verið í lífi Naglans að hann er nú í pásu sökum ofneyslu Blush.

Ommiletta kaupfélagsstjórans:

Innihald:

5 eggjahvítur pískaðar saman í skál (rauðunni er alltaf hent á mínu heimili en það má setja eina rauðu ef fólk vill)

Grænmeti, það sem til er í ísskápnum hverju sinni, t.d laukur, sveppir, blaðlaukur, paprika, rauðlaukur, hvað sem er bara.  Grænmetið þurrsteikt í nokkrar mínútur eða þangað til laukurinn er orðinn sveittur.  Það er lykilatriði að eiga góða teflonhúðaða pönnu  svo ekki þurfi að drekkja matnum í olíu.  Sjálf steiki ég aldrei upp úr olíu, alltaf á þurri pönnu.

Eggjahvítum bætt út í grænmetið á pönnunni og látið malla á vægum hita í c.a 10 mínútur eða þar til efri hlutinn er orðinn þurr á að líta.  Þá er lettunni vippað á hina hliðina í nokkrar mínútur, smá pipar og voilá komin dýrindis prótínrík og fitulítil máltíð. 

Ofan á ommilettuna má setja 2-3 sneiðar af 11% osti, eða eina sneið af sojaosti sem svo bráðnar ofan á...jammí Tounge og herlegheitin svo borin fram með gufusoðnu brokkolíi eða aspas og 1 msk af tómatsósu eða salsasósu ef vill. 

Bon appetite!!


Bætiefni Naglans

Mátti til með að skella inn einni mynd af bætiefnaflóru Naglans.  Vantar reyndar eina dollu af ZMA inn á myndina.  Eldhúsáhöldin fá líka að njóta sín þarna í bakgrunninum.  Ef maður væri nú bara tölvunörd og gæti photoshoppað svona hluti í burtu og gert myndina meira commercial.  En þar sem tæknileg fötlun hrjáir Naglann þá verðið þið bara að horfa fram hjá ostaskera og skurðbretti Whistling.

Fæðubótaefni naglans


Fróðleiksmoli dagsins

Ég má til með að benda ykkur á snilldarvef þar sem má finna næringargildi fyrir langflestar matvörur. 

Hitaeiningar, kolvetni, prótín og fita í 100 g af ætum hluta er gefið upp sem auðveldar manni lífið í þessum endalausu útreikningum um hvað mikið má borða Woundering

Einnig eru alls kyns aðrar upplýsingar um hin ýmsu næringarefni sem ég kann ekki einu sinni skil á Blush

Semsagt afar gagnlegur vefur Smile.


Kúpubrjótur


Skull crusher eða Kúpubrjótur er ekki persóna úr He-man eða fjall (sbr. Leggjabrjótur í Skaftafelli), heldur er um að ræða þríhöfða æfingu sem felst í því að legið er á bakinu á bekk. Stöng er haldið í augnhæð fyrir ofan höfuð og eingöngu olnbogar beygðir þar til stöng nemur við enni og nota þríhöfðann til að lyfta stöng til baka í augnhæð.

Passa skal að olnbogar vísi alltaf beint fram en ekki út til hliðar til að einangra þríhöfðann.

Ekki taka of þungt í þessari æfingu því eins og nafnið gefur til kynna þá getur slíkt leitt til kramdrar kúpu.

Má einnig framkvæma með handlóðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ragnhildur Þórðardóttir
Ragnhildur Þórðardóttir

Hér læt ég gamminn geysa um ýmislegt sem tengist hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og hollu mataræði í formi pistla og fróðleiks.  Mín lífsviðhorf eru að góð heilsa er gulli betri og að í hraustum líkama býr heilbrigð sál. 
Ég tek einnig að mér fjarþjálfun.

Allar upplýsingar um fjarþjálfun á www.ragganagli.com

Spurt er

Hvað gerirðu margar brennsluæfingar á viku?

Nýjustu myndir

  • front-plank-exercise
  • binge_barbie
  • sleep-deprived
  • phpwWI9BvAM
  • eating too much

Aðrir vaðlarar

Bækur

Góðar bækur

  • Bók: A Thousand Splendid suns
    Khaled Hosseini: A Thousand Splendid suns
    Frábær bók en jafnframt mjög átakanleg. Þurfti að loka henni nokkrum sinnum og jafna mig því lýsingarnar á heimilisofbeldinu voru einum of grafískar fyrir minn smekk.
    *****
  • Bók: Kite runner
    Khaled Hosseini: Kite runner
    Algjör snilld. Fjallar um tvo drengi í Afganistan í kringum 1970 áður en allt fór til fjandans þar í landi.
    *****
  • Bók: On beauty
    Zadie Smith: On beauty
    ***
  • Bók: Espresso tales
    Alexander McCall Smith: Espresso tales
    Framhald af 44 Scotland Street. Er að lesa hana núna.
  • Bók: 44 Scotland Street
    Alexander McCall Smith: 44 Scotland Street
    Gerist í Edinborg og þvílík nostalgía sem ég fæ við að lesa þessa bók enda kannast maður við alla staðina sem fjallað er um.
    ****
  • Bók: The time traveller's wife
    Audrey Niffenegger: The time traveller's wife
    Með betri bókum sem ég hef lesið. Falleg ástarsaga um mann og konu sem þurfa að díla við tímaflakk mannsins.
    ****
  • Bók: We need to talk about Kevin
    Lionel Shriver: We need to talk about Kevin
    Hugleiðingar móður fjöldamorðingja um áhrif uppeldis og erfða. Mjög athyglisverð lesning, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á "nature-nurture" deilunni.
    *****

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 551988

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband