Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Happy day

Í dag eru nákvæmlega 10 vikur í fitnessmótið. Í dag er líka brúðkaupsdagurinn minn og því mun án efa einhver óhollusta rata inn fyrir varir Naglans næsta sólarhringinn, bæði í föstu og fljótandi formi.

En á morgun er nýr dagur sagði Scarlett O'Hara forðum daga og á mánudag verður Naglinn kominn aftur í heilsugírinn, galvösk á brettinu og hafragrautur á diskinn minn.

Góða helgi gott fólk!!


Hollt eða óhollt? Þitt er valið!

Dyggur lesandi spurði hvað ég gerði í óþægilegum aðstæðum þar sem matur á “bannlista” er í boði. Allir lenda í því reglulega að vinir og vandamenn bjóða manni út að borða á pizzastaði eða í mat heima hjá sér og þegar maður er að passa mataræðið upp á punkt og prik þá þarf maður bara að vera harður bæði við sjálfa sig og gagnvart öðru fólki. Það má líkja þessu saman við ef einhver myndi biðja þig að taka þátt í sadó-masó athöfn með sér. Ef maður er ekki fyrir svoleiðis samkomur þá er enginn að ætlast til þess að maður strippi sig klæðum og hoppi í leðurgalla og sveifli svipu. Sama gildir um matarvenjur, þú átt ekki að láta annað folk stjórna því hvað fer ofan í þig, ef þú vilt ekki borða pizzur eða hamborgara þá einfaldlega læturðu það í ljós við viðkomandi. Þegar mér er boðið í mat þá spyr ég yfirleitt hvað sé í matinn og ef það samræmist ekki mínum matarvenjum þá kem ég einfaldlega með mat með mér. Flestir sem mig þekkja vita að ég læt ekki hvað sem er ofan í mig og móðgast því (vonandi) ekki þegar ég dreg upp Tupperware boxið. Eins með saumaklúbba, það er engin ástæða til að sleppa því að mæta heldur er hægt að borða bara sinn kvöldmat áður en farið er og sleppa kruðeríinu eða ef niðurskorið grænmeti eða ávextir eru í boði má narta í það.
Ef vinur eða vinkona biður mig um að koma út að borða á sveitta hamborgarabúllu, sem enginn gerir lengur reyndar, þá segi ég bara einfaldlega að ég borða ekki slíkan mat og hvort viðkomandi sé ekki til í að koma frekar á Vegamót eða eitthvert annað þar sem ég geti pantað hollustu.
Þetta er allt spurning um val, hvað velurðu að borða og hvað velurðu að borða óhollt oft í viku, og þetta val er algjörlega undir manni sjálfum komið.
Maður á ekki að þóknast öðrum með að gúffa í sig einhverjum viðbjóði og líða illa líkamlega og andlega eftir á.

Er nauðsynlegt að skjóta þá....

Vissuð þið að hrefnukjöt er frábær viðbót við hollustuna. Það er meira prótín og minni fita í 100 g af hrefnukjöti en í 100 g af kjúklingabringu.

Hrefna 100 g: Prótín 25, 9 g, fita 0,9 g, kolvetni 0 g

Kjúklingabringa 23 g, fita 1,1 g, kolvetni 0 g

Þetta þykir mér stórkostleg tíðindi því ekki veitir af smá fjölbreytni í fæðið hjá okkur heilsumelunum, og svo er hrefnan svo guðdómlega gómsæt.

Ég segi bara: Áfram Kristján Loftsson!!


Fólk er fífl

Nú er nóg komið....síðustu pistlar hafa bara verið eitthvað væl og Naglinn grenjar ekki. Eftir að hafa eytt helginni í vangaveltur um hvort ég sé of feit, of mjó, ekki nógu mössuð, of lítil, of stór eða hver hafi eiginlega verið ástæða þessarar ömurlegu athugasemdar frá þessum plebba hefur Naglinn ákveðið að halda áfram ótrauður í átt að settu markmiði.

Þökk sé yndislegum lesendum síðunnar sem hafa aldeilis stappað í mig stálinu og varpað ljósi á sannleikann sem er að fólk er fífl eins og Botnleðja benti svo réttilega á hér um árið.

Ég hafði aldrei hugsað mér að vinna þessa keppni, bara það eitt að fara í gegnum þennan undirbúning og labba upp á þetta svið og standa þar verður sigur fyrir mig og maður á alltaf að klára það sem maður byrjar á.

Fróðleikspistill er væntanlegur innan skamms.

Takk fyrir allt peppið elskurnar mínar. Þið eruð best!!


Á báðum áttum

Nú er Naglinn á báðum áttum með að keppa í þessu fitness dæmi. Þannig er nefnilega mál með vexti að á laugardagskvöldið var ég stödd í gleðskap og þar vindur einn veislugestur sér upp að mér og segir að hún hafi frétt að ég ætli að keppa í fitness og fer að spyrja mig um fyrirkomulag og æfingar keppninnar. Nema hvað.... að maðurinn hennar sem situr við hliðina á okkur segir allt í einu: " Ertu að fara að keppa í fitness?", mælir mig út frá toppi til táar og segir síðan:" Þarftu þá ekki að fara að byrja að æfa?" Á ég að taka þessu sem móðgun og kasta eggjum í húsið hans eða á ég að senda honum þakkarskeyti fyrir að hafa bent mér á hið augljósa og ég sé bara veruleikafirrt að halda að ég eigi séns í þessa keppni??

Ósáttur Nagli

Nú er Naglinn ósáttur við lífið og tilveruna. Ástæða ógleðinnar er sú ákvörðun Þrekmeistaranefndar að setja keppnina ekki fyrr en 10. nóvember þegar aðeins tvær vikur eru í fitness mótið þann 24. nóvember. Þá verður Naglinn svo aðframkomin af hungri og vosbúð í bullandi niðurskurði að árangur mun líklega ekki verða í samræmi við væntingar.

Ætla samt ekki að hætta að æfa fyrir Þrekmeistarann heldur sjá hvernig staðan verður á skrokk og orku þegar 10. nóvember rennur upp.

Er samt ekki sátt við þessa menn, því ég hafði gert ráð fyrir keppninni í byrjun október eins og í fyrra og það hefði passað eins og flís við rass inn í prógrammið mitt. En ég er víst ekki innsti koppur í búri þegar kemur að skipulagningu móta á Íslandi.


Flatulence

Naglinn lenti í óskemmtilegu atviki í ræktinni í gær Frown

Var að massa beygjurnar og þar sem ég er í miðju þungu setti þá fer prótínsjeikinn frá því um morguninn að gera óþægilega vart við sig.  Ekki hjálpaði til að vera með lyftingabelti reyrt inn að rifbeini og að sitja á hækjum sér með hlassið á herðunum og allt loft þrýstist niður í þarmana.  Án þess að neinum vörnum yrði komið við var afleiðingin heiftarlegur viðrekstur með tilheyrandi óhljóði.

Að sjálfsögðu vakti þetta atvik óskipta eftirtekt nærstaddra, bæði hjá þeim sem voru á bretti og í salnum enda hávaðinn vel yfir 60 decibelin, og varð starsýnt á mig en ég reyndi að halda kúlinu og lét sem ekkert væri og kláraði settið en blóðroðnaði auðvitað af skömm ofan á áreynsluna svo andlitið fékk á sig fjólubláan tón Blush.

Ég hef aldrei óskað mér jafn heitt að geta gert mig ósýnilega.

Veit einhver hvar maður getur fengið nýtt andlit??  Þá kannski get ég látið sjá mig aftur í ræktinni.


Et og andet

Jæja!! Bara 10 dagar eftir af 3 vikna "Operation: í kjólinn 15. September".  Enginn nammidagur og hard core mataræði í þrjár vikur er svosem ágætis undirbúningur fyrir það sem koma skal fyrir fitnessmótið í nóvember þegar sultarólin verður þrengd inn að beini og enginn nammidagur í 6 vikur.

Endurheimti hana Jóhönnu mina aftur sem lyftingafélaga á mánudaginn var og við mössuðum brjóst saman, enda ekki annað hægt þegar maður æfir með Íslandsmeistara í bekkpressu kvenna.  Enda er ég með harðsperrur frá annarri vídd í brjóstinu og komið vel á þriðja dag í sperrum.

Ég er að taka aðeins annan vinkil á brennsluna á morgnana núna og farin að taka lotur af plyometrics æfingum á milli spretta á bretti eða skíðavél.  Er að leggja sérstaka áherslu á uppástigið í plyometrics fyrir Þrekmeistarann í október.  Svo þarf kellingin að fara að spýta í sigggróna lófana og æfa helv....armbeygjurnar.  Það er engin hemja hvað mér finnst þessi æfing leiðinleg og erfið, eins og ég hef gaman af líkamlegu erfiði að þá líkar mér hreinlega illa við armbeygjur.  En það þýðir ekkert að grenja, heldur alltaf að sækja á brattann því eins og ég hef margoft sagt að þá er auðveldasta leiðin, leiðin til uppgjafar.

 

Góðar stundir!


Enjoy what you do and do what you enjoy

Dietpic

Sálfræðingar hafa lengi rannsakað hlutverk viðhorfa og skoðana sem forspá um ástundun reglulegrar hreyfingar.

Eftirfararandi skoðanir og viðhorf hafa komið fram í langflestum rannsóknum:

Félagslegur ávinningur hreyfingar: Sú skoðun að hreyfing sé ánægjuleg og þau félagsleg tengsl sem henni fylgja eru talin mikilvæg.  Ein rannsókn skoðaði viðhorf skokkara og þeirra sem ekki stunduðu skokk.  Þeir sem stunduðu ekki skokk sögðu að slík iðja krefðist of mikils sjálfsaga, og trúðu ekki á jákvæð áhrif og ánægju skokks.

Gildi eigin heilsu: Margir æfa af öðrum ástæðum en sér til heilsubótar, til dæmis fyrir ákveðna íþrótt, fitness, maraþon, kraftlyftingar o.fl.  En sú skoðun að heilsa og hreysti séu mikilvæg spilar samt ákveðið hlutverk í forspá um hvort viðkomandi stundi hreyfingu eða ekki.

Ávinningur hreyfingar: Þeir sem hreyfa sig reglubundið skora vanalega hærra á skölum sem mæla gildi hreyfingar fyrir heilsu, ánægju af hreyfingu og skora lægra á skölum sem mæla óþægindi og óánægju með ástundun hreyfingar.

Hindranir fyrir ástundun hreyfingar: Það eru ýmsir þættir sem koma í veg fyrir að fólk byrji að stunda reglubundna hreyfingu.  Þar eru mest áberandi þær skoðanir að hreyfing sé tímafrek, of langt í burtu, of dýr og óþægileg upplifun af hreyfingu.

 

Það vekur vissulega athygli að þrátt fyrir almenna vitneskju um að regluleg hreyfing skili sér í betri heilsu þá virðist sú vitneskja ekki skipta öllu máli í forspá um ástundun hreyfingar.  Ánægjuleg upplifun af hreyfingu er mun sterkari þáttur í að spá fyrir um hvort einstaklingur stundi hana reglulega.  Óþægileg upplifun og óánægja er algengasta ástæða fyrir uppgjöf.

 

Skilaboðin eru því skýr: Finnið ykkur hreyfingu sem ykkur þykir skemmtileg!!

 


« Fyrri síða

Höfundur

Ragnhildur Þórðardóttir
Ragnhildur Þórðardóttir

Hér læt ég gamminn geysa um ýmislegt sem tengist hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og hollu mataræði í formi pistla og fróðleiks.  Mín lífsviðhorf eru að góð heilsa er gulli betri og að í hraustum líkama býr heilbrigð sál. 
Ég tek einnig að mér fjarþjálfun.

Allar upplýsingar um fjarþjálfun á www.ragganagli.com

Spurt er

Hvað gerirðu margar brennsluæfingar á viku?

Nýjustu myndir

  • front-plank-exercise
  • binge_barbie
  • sleep-deprived
  • phpwWI9BvAM
  • eating too much

Aðrir vaðlarar

Bækur

Góðar bækur

  • Bók: A Thousand Splendid suns
    Khaled Hosseini: A Thousand Splendid suns
    Frábær bók en jafnframt mjög átakanleg. Þurfti að loka henni nokkrum sinnum og jafna mig því lýsingarnar á heimilisofbeldinu voru einum of grafískar fyrir minn smekk.
    *****
  • Bók: Kite runner
    Khaled Hosseini: Kite runner
    Algjör snilld. Fjallar um tvo drengi í Afganistan í kringum 1970 áður en allt fór til fjandans þar í landi.
    *****
  • Bók: On beauty
    Zadie Smith: On beauty
    ***
  • Bók: Espresso tales
    Alexander McCall Smith: Espresso tales
    Framhald af 44 Scotland Street. Er að lesa hana núna.
  • Bók: 44 Scotland Street
    Alexander McCall Smith: 44 Scotland Street
    Gerist í Edinborg og þvílík nostalgía sem ég fæ við að lesa þessa bók enda kannast maður við alla staðina sem fjallað er um.
    ****
  • Bók: The time traveller's wife
    Audrey Niffenegger: The time traveller's wife
    Með betri bókum sem ég hef lesið. Falleg ástarsaga um mann og konu sem þurfa að díla við tímaflakk mannsins.
    ****
  • Bók: We need to talk about Kevin
    Lionel Shriver: We need to talk about Kevin
    Hugleiðingar móður fjöldamorðingja um áhrif uppeldis og erfða. Mjög athyglisverð lesning, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á "nature-nurture" deilunni.
    *****

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 550733

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband