Oft má satt kyrrt liggja

Naglinn átti ljúfa daga í Köbenhavn.  Fór í ræktina og borðaði samkvæmt planinu alveg fram á laugardagskvöld þegar við fórum út að borða á indverskan.  Á páskadag missti Naglinn sig svo alveg og sukkaði út fyrir öll velsæmismörk.  Páskaegg, danskur frokost, meira páskaegg, meiri síld, kavíar, spekfeitur ostur, enn meira páskaegg rann allt ljúflega niður, einum of ljúflega eiginlega. 

Naglanum leið ekki vel með bumbuna út í loftið á leiðinni heim á páskadagskvöld í flugvélinni og þurfti meira að segja að skipta úr gallabuxunum yfir í jogging á vellinum.... eins og Joey í Friends sagði réttilega:  "Jeans have no give."

Að morgni annars páskadags drattaðist Naglinn í brennslu, illa sofin, útúrvötnuð eins og naggrís í framan, með tvær bólur á stærð við Vatnajökul á hökunni og bumbuna í hjólbörum.  Sjálfstraustið var því í sögulegri lægð þennan morguninn.  Því var síðan sturtað ofan í klósettið eftir samtal sem Naglinn átti við kunningjakonu sína í ræktinni, en sú sá um að mæla Naglann fyrir fitnesskeppnina í haust.

Eníhú.... Konan segir:  "Þú hefur nú bætt dálítið vel á þig síðan þú kepptir í haust."

Naglinn:  Ha já, *roðn* já, það eru komin einhver 9 kíló síðan í keppninni.

Konan:  "Já, ég sé það...það er nú líklega ekki mikil fita, þú æfir nú svo mikið.  En þú þarft að passa kviðsvæðið á þér... þú varst búin að ná því svo vel niður en það er allt komið til baka".  

Naglinn:  *roðn*  he he já, bumbumaginn er kominn aftur.  Það gerðist mjög fljótt.  Ég virðist safna á mig þarna.... *hér var Naglinn orðinn létt fjólulitaður af skömm*

Konan:  Já maginn á þér er alltaf svo útblásinn.  Eins og þú sért alltaf ógeðslega södd!!!

 Með þessa blautu tusku í smettinu labbaði Naglinn út úr ræktinni þennan morguninn, með bólurnar og ógeðslega sadda magann.  Svuntuaðgerð var íhuguð alvarlega og gönguferð í sjóinn var álitin vænlegur kostur.

Maður þarf ekkert alltaf að segja það sem maður hugsar....    


Det er dejligt i Denmark.... ok, ok, Naglinn er slappur í dönsku

Jæja kóngsins Köbenhavn á morgun og Naglinn búinn að skipuleggja sig ofan í hörgul. Búin að telja hve margar máltíðir eru inni í ferðalaginu og byrjuð að búa til nesti fyrir Tupperware-ið. Bý til eina máltíð aukalega ef það skyldi verða seinkun á vélinni. Eins og Naglinn hefur áður sagt: "If you fail to prepare, you prepare to fail". Naglinn lenti einu sinni í nokkurra klukkustunda seinkun á Stansted og ekki með neitt nesti með sér. Það var ekkert sem Naglinn gat látið ofan í sig í sjoppuræksninu sem okkur var boðið upp á biðsalnum og ekki tók skárra við í flugvélinni en flugvélamatur er dauði í bakka. Það var skárra að þrauka en að borða sveittar kartöfluflögur eða löðrandi ommilettu. Þetta er lífsreynsla sem Naglinn lærði aldeilis af.... aldrei fara ónestuð í flug. Búin að tékka á opnunartímanum í ræktinni í Köben. Verðum sótt út á völl af mági mínum og Naglinn keyrður beint í ræktina til að ná æfingu áður en lokar kl. 14 á morgun. Prímadonna....hver...ég??? Svo er opið alla páskahátíðina frá kl. 8 á morgnana svo Naglinn getur tekið á því alla dagana. Sjáum til með sunnudaginn samt. Búin að pakka haframjöli, hrískökum, Husk, hörfræjum..... tek enga sénsa að þetta sé allt saman til í Danaveldi. Búin að pakka iPod og púlsmæli, ströppum, kreatíni, prótíndufti, Myoplexi, glútamíni, BCAA. Hendi svo blandaranum ofan í tösku í fyrramálið. Svo Naglinn er tilbúinn í átökin á erlendri grund. Gleðilega páska!! Njótið páskaeggsins, þið eigið það skilið eftir allt púlið og holla mataræðið.

Svelta fitu vs. brenna fitu

 

Það er til aragrúi af megrunarkúrum sem allir eiga það sameiginlegt að forsvarsmenn þeirra lofa okkur sótsvörtum og spikfeitum almúganum gulli og grænum skógum. 
Yfirlýsingar á borð við " þú missir 5 - 10 kg á 2 vikum" eru allsráðandi í sjónvarpsmarkaðnum, í skjáauglýsingum og á síðum tímarita.  Sannleikurinn er hins vegar sá að það er líkamlega ómögulegt að missa 5-10 kg af líkamsfitu á svo skömmum tíma.  Ef þú missir svo mikla þyngd þá er það smotterí af fitu, slatti af vöðvum og hellingur af vatni. 

Þeir sem eru í mikilli yfirþyngd, eru yfirleitt á óhollu fæði, sem inniheldur mikið salt og sykur, og því jafnan mjög vatnaðir.  Þegar þeir svo byrja á megrunarkúrum sem felur í sér holla fæðu og yfirleitt mikla vatnsdrykkju losast um vatnið í líkamanum og þeir léttast, en þetta þyngdartap er að mestu leyti vökvatap.  Það er því auðvelt að láta blekkjast af nálinni á vigtinni og halda að kúrinn sé að gera glimrandi hluti í að losna við mörinn.  Lífið er ekki svo einfalt, að einn töfrakúr geri okkur að grískum goðum.

GarfieldDiet

 

Það eru fjórar undirstöður fyrir fallegan og hraustan líkama: 

  • styrktarþjálfun
  • þolþjálfun
  • rétt næring
  • rétt hugarfar

Það sem vantar í svo marga megrunarkúra er æfingaþátturinn. 
Það er mun vænlegra til langtímaárangurs að brenna burt fitunni í stað þess að svelta hana burt.  Þegar við sveltum fituna burt með mataræði sem er mjög lágt í hitaeiningum þá virkar það fyrst og nálin færist neðar og það veldur gríðarlegri hamingju. 

 

diet-scales

En Adam er ekki lengi í Paradís meðan hann aðhyllist þennan lífsstíl. 

Stöðnun verður í nánast öllum slíkum tilfellum, því líkaminn aðlagast og brennslan venst þessum lága hitaeiningafjölda.  Líkaminn heldur að við séum að svelta og bregst við einfaldlega með að brenna færri hitaeiningum. 

Styrktarþjálfun og regluleg hreyfing bjarga okkur út úr slíku ástandi.  Með því að lyfta lóðum aukum við vöðvamassann, og það kemur í veg fyrir að brennslan detti niður í fyrsta gír.  Aukinn vöðvamassi leyfir okkur líka að borða meira... og hverjum finnst ekki gaman að borða??  Í staðinn fyrir að kötta kaloríur niður í öreindir erum við að brenna fitunni en ekki að svelta hana.


Blessað gjálífið

Naglinn höndlar afar illa þegar grunnþörfum líkamans er ekki sinnt sem skyldi. Til dæmis þegar Naglinn þarf að pissa verður að sinna þeirri þörf med det samme, Naglinn á afar erfitt með að halda lengi í sér. Eins er svengd ástand sem fer virkilega í skapið á Naglanum, og friður sé með þeim sem verður á vegi hans í því ástandi. Svefn er Naglanum líklega einna mikilvægastur í þarfapýramídanum og þarf sinn átta tíma svefn til að fúnkera rétt og geta sinnt öllum skyldum dagsins. Minni svefn bitnar á æfingunum og það er fátt sem pirrar Naglann meir en að ganga illa á æfingu. Þegar risið er árla úr rekkju þarf að ganga árla kvölds til náða, og Naglinn er yfirleitt kominn undir værðarvoðina um kl 21.30 á kvöldin. Það setur því alla starfsemi og regluverk líkamans úr skorðum að stunda gjálífið fram undir morgun líkt og Naglinn gerði á föstudagskvöldið. Eftir að hafa hrist skankana duglega á Sálarballi, var haldið í sollinn þar sem öldurhúsin voru stunduð og mjöðurinn teygaður langt fram á nótt. Daginn eftir slíkan ólifnað er Naglinn alltaf haldinn óseðjandi hungri, og löngun í hafragraut og eggjahvítur er víðsfjarri. Matur sem allajafna er ekki á planinu rataði því á diskinn: Cheerios með sojamjólk, flatkökur, rúgbrauð með smjöri, brauð með osti og sultu, páskaegg (já ég veit að þeir eru ekki fyrr en um næstu helgi), en við ætlum ekki að ræða magnið af fóðri sem fór inn í munn og ofan í maga á laugardaginn. Bumban segir sína sögu. Svefnleysi, súkkulaðiát og timburmenn eru ekki vænleg blanda, og Naglinn er vel slenaður eftir allan ófögnuðinn. Er komin úr allri æfingu, enda ekki djammað síðan á gamlárskvöld og því tekur þetta virkilega á skrokkinn. En hvað gerir maður þegar maður dettur af baki? Jú maður klifrar aftur upp á hrossið. Var því komin aftur á beinu brautina í dag, sunnudag, og drattaðist með spikið í brennslu í morgun og er á leiðinni að massa axlirnar núna. Mataræðið spikk og span eins og á að vera. Það er nauðsynlegt að lyfta sér á kreik öðru hvoru, annars myndi maður missa vitið. En maður kann samt betur að meta rólegu helgarnar þegar timburmennirnir hamra fast á höfuðið.

Ketónar....say again??

  Margir aðhyllast svokallaða low-carb/high-fat kúra.  Dæmi um slíka kúra eru Atkins, Ketogenic cycle diet o.fl.  Þá eru kolvetnin skorin niður í nánast ekkert en fitu hins vegar neytt í stórum skömmtum.

Talsmenn þessarra kúra halda blákalt fram að fitubrennsla verði öflugri á slíku mataræði því hún verði löt þegar kolvetni eru til staðar í mataræði.  Það er hins vegar til orðatiltæki sem segir "fita er brennd í ofni kolvetna". 

stupidity

Ein afleiðing af kolvetnasvelti er svokallað ketósu-ástand. 

Líkaminn þarfnast nægilegs magns af kolvetnum til að brenna fitu á skilvirkan hátt.   Eitt helsta einkenni ketósu ástands er myndun ketóna í líkamanum, en þeir eru afurð ófullkominnar brennslu á fitu í líkamanum.  Þegar engin kolvetni eru til staðar í líkamanum losar bris út hormónið Glucagon, sem er notað til að brjóta niður vefi til orkunýtingar og er því niðurbrjótandi (katabólískt).  Þetta hormón er notað við framleiðslu á ketónum í lifur.  Hægt er að nota ketóna í staðinn fyrir glýkógen sem orkugjafa en þeir eru ekki nærri eins skilvirkir í að knýja líkamann áfram á æfingu eins og glýkógen. 

Þegar ketósuástand hefur varað lengi verður maður þreyttur og slenaður.  Kolvetni eru megin orkugjafi heilans, en hann notar um 25% af glúkósa líkamans svo það hægist óhjákvæmilega á hugrænni getu þegar þau eru ekki til staðar.  Líkaminn þornar smátt og smátt upp og það er auðvelt að rugla saman vökvatapi við fitutap.  Það sem verra er, er að heilinn tekur alltaf sín 25% af kolvetnum og þegar kolvetni eru ekki til staðar byrjar líkaminn að nota stærri og stærri skammta af amínósýrum (prótín) sem auka orkugjafa.  Fyrir þá sem eru að reyna að byggja upp eða viðhalda vöðvamassa vinnur slíkt ástand á móti þeim.  Þegar við missum vöðvamassa brennum við færri hitaeiningum yfir daginn, og fitusöfnun fylgir óhjákvæmilega í kjölfarið. 

lowcarb

Sumt keppnisfólk í fitness og vaxtarrækt notar þessa aðferð til að skera sig niður í öreindir, og þá aðeins í mjög stuttan tíma. 

Fyrir hinn meðalJón og Gunnu er ketósuástand hinsvegar ekki leiðin að hreysti og heilbrigði.  Það er ástæða fyrir því að kolvetni eru einn af fæðuflokkunum þremur... við eigum að borða þau!!!


Sterar

Hvað eru sterar?  Sterar er íslensk þýðing á orðinu steroids, sem er stytting á anabolic-androgenic steroids (AAS).  Sterar er fjölskylda af hormónum sem innihalda karlhormónið testósterón, ásamt tugum annarra testósterón afbrigða. 

Í kringum 1950 uppgötvuðu afreksíþróttamenn að sterar gætu aukið vöðvavöxt alveg gríðarlega.  Vöðvabyggjandi áhrif stera felast í eiginleika þeirra að halda í prótín sem eins og við vitum er byggingarefni vöðva. 

funny-pictures-steroids-naahhh-0q5

Neysla á sterum ein og sér getur samt ekki byggt upp vöðva.  Það er nauðsynlegt að æfa mikið og borða mikið til að þeir hafi áhrif.   Á sterum jafnar líkaminn sig mun fyrr eftir æfinguna en þegar hann er hreinn, svo það er hægt að æfa oftar og meira.  Raunar geta steranotendur æft svo mikið að það myndi teljast til bullandi ofþjálfunar hjá þeim sem eru hreinir. 

Á árunum 1960-70 voru það eingöngu íþróttamenn sem notuðu stera en seint á áttunda áratug síðustu aldar urðu bandarískir menn varir við þá miklu vöðvaaukningu sem þeir gátu náð með neyslu á sterum.  Neysla stera færðist þannig frá lokuðu samfélagi afreksíþrótta yfir í líkamsræktarstöðvar og á götuna. 

steroids

Þar sem fyrsta kynslóð steranotenda er að komast yfir 50 ára aldurinn er nú fyrst hægt að gera rannsóknir á langtímaáhrifum steranotkunar á líkamlega virkni, til dæmis á hjarta -og æðakerfi, taugakerfið, líffærin og geðræn áhrif steranotkunar.

 

Hjarta- og æðakerfið: Sífellt fleiri rannsóknir sýna að neysla á sterum hefur víðtæk áhrif á hjarta- og æðakerfið.  Til dæmis háþrýstingur og hjartaöng.  Mjög áberandi er að vinstri gátt hjartans (megin dælustöð blóðs í hjartanu) er umtalsvert stærri hjá steranotendum miðað við samanburðarhóp.  Önnur algeng aukaverkun steranotkunar er aukið LDL kólesteról og minna HDL en það getur stuðlað að þrengingu æða sem að lokum veldur kransæðastíflu.  Það sem veldur miklum áhyggjum út frá lýðheilsusjónarmiði er að mörg þessara einkenna koma oft ekki fram fyrr en löngu eftir neyslu á sterum. 

 

Áhrif á taugakerfið:  Langtíma notkun á sterum bælir HPT (hypothalamic-pituitary-testicular) ferlið.  Ófrjósemi og þunglyndi eru ein af afleiðingum langvarandi HPT bælingar.

 

Geðræn áhrif: Rannsóknir sem hafa verið gerðar á rannsóknastofum sem og rannsóknir gerðar utan veggja þeirra í náttúrulegu umhverfi þátttakanda hafa sýnt að sterar valda manískum einkennum á meðan neyslu stendur og þunglyndiseinkenni eru einn þáttur af fráhvarfseinkennum frá sterum. 

 

Skorpulifur:  Hækkun á kólesteróli er eins og áður sagði einn af fylgifiskum steraneyslu.  Það getur valdið því að fita safnast upp í lifur og í miklu magni getur þetta ástand leitt til skorpulifur.  Þegar fita myndast í lifur er það vanalega merki um að eitthvað óeðlilegt er í gangi í líkamanum.

 

Aðrar algengar aukaverkanir steranotkunar:

 

Karlmenn:  Eistu minnka, sæðismagn minnkar, ófrjósemi eins og áður sagði, hármissir, myndun brjósta

 

Konur: skeggvöxtur, blæðingar hætta, snípur stækkar, dýpri rödd

 

Þekkja má steranotendur út frá nokkrum algengum einkennum:

 

steraeink
  • Skyndileg og hröð þyngdaraukning og vöðvavöxtur
  • Fjólubláar eða rauðar bólur á líkamanum, sérstaklega á andliti og baki
  • Bjúgur á fótum og neðri fótleggjum
  • Skjálfti
  • Dekkri húð án skýringa (ekki vegna ljósabekkjanotkunar eða sólbaða)
  • Andremma
  • Aukning í skyndilegum bræðisköstum

 

 

Heimildir

Melchert RB, Welder AA. Cardiovascular effects of androgenic - anabolic steroids. Med. Sci. Sports and Exercise, 1995: 27: 1252-1262

Long term Effects of Anabolic-Androgenic steroids.  Harrison G Pope, Harvard Medical School, November, 2007

Cohen LI et al. Lipoprotein (a) and cholesterol in bodybuilders using anabolic-androgenic steroids. Med Sci. Sports and Exercise, 1996, 28 (2): 176-179

Elevated AST ALT to nonalcoholic fatty liver disease: accurate predictor of disease prevalence? American Journal of Gastroenterology. 2003, May, 98 (5). 955-6


Teygjur

Margir vanrækja teygjuæfingar, og er Naglinn einnig sekur um slíkt athæfi Blush .  En nú er Naglinn að gera bragarbót á þessari vanrækslu, og farinn að teygja stirða skankana út um öll gólf á teygjusvæðinu í Laugum. 

 

Hvað er liðleiki?  Liðleiki er mæling á hreyfiferli (range of motion) í liðum eða liðamótum og færni í að hreyfa liði um allan hreyfiferilinn.

 

Hvað ákvarðar liðleika

 

  • Lögun beina og brjósks í liðnum
  • Lengd og teygjanleiki vöðva, sina, liða í liðamótum
  • Regluleg ástundun hreyfingar
  • Hormónabúskapur kvenna gerir vöðva þeirra teygjanlegri og eru þær því oft liðugri en karlmenn

 

Hvað dregur úr liðleika?

 

  • Kyn
  • Aldur
  • Lítil eða engin ástundun hreyfingar
  • Kyrrsetulífsstíll
  • Meiðsli
  • Lögun liðamóta
  • Vefir eins og líkamsfita og vöðvar geta hindrað fulla hreyfingu liðamóta
  • Sjúkdómar

 

Liðleiki er mismunandi eftir liðamótum.  Öxlin er með liðugustu liðamótin í líkamanum.  Það er hægt að hreyfa öxlina í fleiri áttir og hún hefur stærri hreyfiferil en önnur liðamót líkamans.  Teygjanleiki eykst með reglulegum teygjum bandvefs.  Teygjuæfingar hafa mestu áhrifin á bandvef í vöðvum og liðum.

Teygjuæfingar auka þannig liðleika í liðamótum.  Liðleiki er einn þáttur af hreysti og ætti að fá jafn mikla athygli og lyftingar og þolæfingar í æfingaáætlun hvers og eins. 

Liðleiki hefur áhrif á heilsuna.  Því liðugri sem við erum því auðveldara verður að gera daglegar athafnir eins og til dæmis að beygja sig til að reima skóna.  Eins getur aukinn liðleiki minnkað líkur á meiðslum, hvort sem er í líkamsrækt eða í daglegu lífi.

 

Þeir sem stunda íþróttir og líkamsrækt finna fljótlega að reglulegar teygjuæfingar hafa víðtæk áhrif á líkamann.

 

Ávinningur reglulegra teygjuæfinga:

  • Liðleiki
  • Vöðvastyrkur
  • Vöðvaþol
  • Hreyfanleiki vöðva og liða
  • Aukinn hreyfiferill (range of motion)

 

Teygjuæfingar minnka líkur á:

 

  • Harðsperrum
  • Meiðslum
  • Streitu

 

Teygjuæfingar stuðla að bætingum á:

  • Hreyfingum vöðva
  • Líkamsstöðu
  • Útliti

 

Mælt er með að teygja 3 - 4 sinnum í viku eftir þolæfingar eða lyftingar, því þá eru vöðvarnir heitir.  Það getur valdið meiðslum að teygja á köldum vöðvum, því þá er teygjanleiki þeirra ekki eins mikill og þegar þeir eru heitir. 

Reyna að teygja 10% fram yfir eðlilega lengd, eða þar til maður finnur spennu. 

Halda teygjunni í 20-30 sekúndur, hvíla og endurtaka teygjuna 3-4 skipti í viðbót.

Ekki halda um liðamót þegar teygt er

Ekki teygja um of

 

Til eru nokkrar tegundir af teygjum:

 

Static teygjur- þessi klassíska.  Hægt og bítandi teygja vöðvann eins og hægt er og haldið í þeirri stöðu.  Þessi aðferð leyfir vöðvanum að vera slakur svo meiri lengd náist

Dynamic teygjur - teygja vöðvann undir stjórn á mismunandi hraða.  Til dæmis að labba og sveifla fótum um leið.

Ballistic teygjur - dúa til að þröngva vöðvanum í mestu teygju.  Ekki er mælt með þessari aðferð til að auka liðleika.  Hætta er á að teygja um of á liðamótunum með því að dúa.

Virk teygja - teygja vöðvann sjálfur

Óvirk teygja - félagi hjálpar við teygjuna. 

PNF teygja - teygja og spenna vöðvann samtímis.  Krefst aðstoðar félaga til að spenna og slaka á vöðva.  Þessi aðferð er mjög árangursrík en jafnframt mjög sársaukafull.

 

Yfirleitt er mælt með að fólk í venjulegri líkamsrækt noti static teygjur því það er minnsta hættan á meiðslum með þeirri aðferð.

 

 


Taktu á því kelling!!

Til þess að skerpa á umfjöllunarefni síðasta pistils vill Naglinn koma með smá fræðilegan pistil um lyftingar og konur til að vonandi hrekja burt þessa bábilju um að konur verði útúrmassaðir kögglar með lyftingum einum saman.

Í bæði konum og körlum eru hormónar sveimandi um blóðrás.  Testósterón, estrógen, prógesterón, DHEA.  Bæði kynin hafa öll þessi hormón en í mismunandi magni þó.  Karlar hafa mun hærra magn af testósterón og DHEA en konur en þær hafa hins vegar hærra magn af prógesterón og estrógeni.  Það fer eftir einstaklingnum, en að jafnaði hafa konur hafa u.þ.b 10- 30 sinnum minna af testósteróni í líkamanum en karlmenn.

Testósterón er mjög öflugt hormón.  Það er einn helsti þáttur sem gerir karlmönnum kleift að byggja upp vöðva.  Það eru hins vegar til konur sem lyfta lóðum og líta út eins og karlmenn.  Það er ekki vegna þess að þær eru að lyfta of þungt, heldur eru þær einfaldlega að innbyrða testósterón og vaxtarhormóna sem hjálpar þeim að líta svona út.

massa kelling

Meðalkonan sem lyftir þungt verður ekki ofurmössuð og mun ekki líta út eins og karlmaður ef hún sleppir því að sprauta slíkum efnum í sig.  Þessi ofurhræðsla við þungu lóðin er því óþörf.

Samfélagsleg viðmið geta haft áhrif á þessa hræðslu kvenna við að taka á járninu.  Það var ekki fyrr en á sjöunda áratug síðustu aldar með frumvarpi um jafnan aðgang allra að íþróttum að konur í U.S.A fengu tækifæri til íþróttaiðkunar til jafns við karlmenn.  Þá fyrst fóru konur að taka á því fyrir alvöru.  En þó að liðin séu rúmlega 30 ár eru því miður ennþá við lýði staðalmyndir karla og kvenna, þar sem karlmenn eiga að vera stórir og sterkbyggðir en konur smáar og fíngerðar.  Margar konur hamast því við að hora sig niður í kroppað hræ með endalausum cardio æfingum og fuglafæði, og snerta ekkert nema bleiku lóðin af ótta við að taka meira pláss í heiminum.

bleiku lóðin

Hins vegar er það jákvæð þróun að fleiri konur sjást nú í tækjasalnum en áður fyrr, og er það sérstaklega jákvætt í ljósi þess að styrktarþjálfun er eitt helsta vopnið í baráttunni við beinþynningu síðar á ævinni.  Bein þola um 10 sinnum meira álag en líkaminn veitir þeim daglega.  Því meira álag sem við veitum þeim með styrktarþjálfun, innan hóflegra marka þó, því meira styrkjast beinin.  Hámarks styrktar aukning verður þegar þyngdir og ákefð eru stigvaxandi þjálfunaráreiti. Sama lögmál gildir um brjósk, liðamót og sinar en því sterkari sem þau eru því minni líkur á meiðslum, liðagigt og mjóbaksverkjum.

 

Nokkrir ávinningar styrktarþjálfunar fyrir konur *:

 

  • Styrkir ekki bara vöðva heldur einnig bein með því að auka steinefni í þeim.
  • Sterkari vöðvar styðja betur við beinin og þannig getur aukinn vöðvamassi minnkað líkur á beinþynningu.
  • Sterkari bandvefur sem leiðir til stöðugri liðamóta og minnkar þar með líkur á meiðslum, gigt og bakverkjum.
  • Aukinn vöðvamassi (virkur vefur) og minni líkamsfita (óvirkur vefur)
  • Aukin grunnbrennsla vegna aukins vöðvamassa og minni líkamsfitu
  • Aukið sjálfstraust og betri sjálfsmynd
  • Betri sjálfsmynd og sjálfstraust getur dregið úr þunglyndi og rannsóknir hafa sýnt að þjálfun dregur úr einkennum depurðar hjá þeim sem stunda reglulega þjálfun.

Pumpaðar í drasl

Naglinn heyrði á tal nokkurra unglingsstúlkna í ræktinni. Þær voru að pumpa bíseppinn með léttustu lóðunum sem var auðvitað alltof létt svo þær sveifluðu járninu og minnstu munaði að Naglinn fengi eitt slíkt tvinnakefli í hausinn. Ein þeirra var nú samt með 5 kg og hinar voru fjólubláar af hneykslan og húðskömmuðu greyið vinkonuna. Baneitraðar athugasemdir dundu á aumingja stúlkunni: "Ég ætla sko ekki að verða mössuð, þess vegna lyfti ég bara létt. Ég skil ekkert í þér að vera að lyfta svona þungt. Þú verður alltof stór og vöðvuð." Hvenær ætla kynsystur mínar að átta sig á að við höfum einfaldlega ekki hormónabúskapinn í að verða vöðvatröll. Ekki nema að þær séu með bílfarma af vaxtarhormónum og rasskinnarnar fullar af sterasprautum verða þær ekki eins og trukkabílstjórar á einni nóttu með því að lyfta þungt. Við kvenpeningurinn erum því miður þannig af guði gerðar að það tekur okkur óratíma af lyftingum og gríðarlegt magn af mat til að bæta á okkur kjöti. Ef það væri nú bara jafn auðvelt og þessar skvísur halda að verða massaður með því að lyfta þungt þá væri Naglinn líklega á stærð við einbýlishús. Þessar gellur gætu hins vegar fengið fallega vöðva, fallegar línur og brennt meiru yfir daginn ef þær voga sér að pumpa meira en 5 kg lóðin. Var einmitt að ræða þetta við einn einkaþjálfara í World Class um daginn sem sagðist vera orðinn svo þreyttur á að útskýra það sama fyrir hverri einustu konu sem kæmi í þjálfun til sín....þið verðið ekki massatröll á því að lyfta!!! Konur! Hættið þessu kjaftæði og takið almennilega á því.

Grimmur Nagli

Naglinn fór að pumpa axlirnar í gær.  Í þetta skiptið náðist ekki að draga hösbandið með því hann var með einhverja skæða sunnudagaflensu Sick.  Naglinn þurfti því að leita á náðir nærstaddra með spott í þyngstu settunum af pressu með lóð.  Það er nefnilega svo fjandi erfitt að koma lóðunum upp í þyngstu settunum þegar maður er aleinn og öll orkan fer í það, svo vill maður auðvitað ná að kreista út 1-2 reps aukalega sem er ógjörningur nema með spott. 

Eníhú.... eftir 3 góð sett af 7-8 repsum var komið að alvöru lífsins og tími til að þyngja.  Naglinn bað því náungann í næsta bekk um að spotta.  Þá sagði gaurinn: " Ég veit nú ekki hvort ég ráði við það, þú ert svo sterk".  Hann hefur þá greinilega verið að fylgjast með Naglanum í fyrri settum (smá creepy Woundering). 
En hann lét sig hafa það og eftir settið sagði hann: " Ég ætla nú að passa mig á að ergja þig aldrei, þú ert svo grimm!" 

Já, passaðu þig bara félagi.... Naglinn er stórhættulegt kvikindi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ragnhildur Þórðardóttir
Ragnhildur Þórðardóttir

Hér læt ég gamminn geysa um ýmislegt sem tengist hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og hollu mataræði í formi pistla og fróðleiks.  Mín lífsviðhorf eru að góð heilsa er gulli betri og að í hraustum líkama býr heilbrigð sál. 
Ég tek einnig að mér fjarþjálfun.

Allar upplýsingar um fjarþjálfun á www.ragganagli.com

Spurt er

Hvað gerirðu margar brennsluæfingar á viku?

Nýjustu myndir

  • front-plank-exercise
  • binge_barbie
  • sleep-deprived
  • phpwWI9BvAM
  • eating too much

Aðrir vaðlarar

Bækur

Góðar bækur

  • Bók: A Thousand Splendid suns
    Khaled Hosseini: A Thousand Splendid suns
    Frábær bók en jafnframt mjög átakanleg. Þurfti að loka henni nokkrum sinnum og jafna mig því lýsingarnar á heimilisofbeldinu voru einum of grafískar fyrir minn smekk.
    *****
  • Bók: Kite runner
    Khaled Hosseini: Kite runner
    Algjör snilld. Fjallar um tvo drengi í Afganistan í kringum 1970 áður en allt fór til fjandans þar í landi.
    *****
  • Bók: On beauty
    Zadie Smith: On beauty
    ***
  • Bók: Espresso tales
    Alexander McCall Smith: Espresso tales
    Framhald af 44 Scotland Street. Er að lesa hana núna.
  • Bók: 44 Scotland Street
    Alexander McCall Smith: 44 Scotland Street
    Gerist í Edinborg og þvílík nostalgía sem ég fæ við að lesa þessa bók enda kannast maður við alla staðina sem fjallað er um.
    ****
  • Bók: The time traveller's wife
    Audrey Niffenegger: The time traveller's wife
    Með betri bókum sem ég hef lesið. Falleg ástarsaga um mann og konu sem þurfa að díla við tímaflakk mannsins.
    ****
  • Bók: We need to talk about Kevin
    Lionel Shriver: We need to talk about Kevin
    Hugleiðingar móður fjöldamorðingja um áhrif uppeldis og erfða. Mjög athyglisverð lesning, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á "nature-nurture" deilunni.
    *****

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband