Færsluflokkur: Naglinn

Morgunverður Naglans

Bara svona til gamans.. og af því Naglinn og Hösbandið voru að fá nýja myndavél þá er hér mynd af morgunverði Naglans: hafragrautur, eggjahvítupönnukaka, jarðarber, súkkulaðiprótín hrært í vatn (í bleika glasinu) til að dýfa jarðarberjunum og pönnsunni ofan í, stórt vatnsglas.  Alltaf borðað við tölvuna eins og sést Blush.

 

 

phpwWI9BvAM 


Mýtur, rugl og kjaftæði sem fara í taugarnar á Naglanum - ekki fyrir viðkvæma

• Fólk sem segir “ég hef fitnað, ég þarf að byrja í ræktinni”. Af hverju segir enginn “ég hef fitnað, ég þarf að laga mataræðið” ??? Fitutap gerist ekki í ræktinni, það gerist við matarborðið.

• Fólk sem vill ekki taka þungt og fá reps af því “ég vil ekki massast, ég vil bara tóna” Hvað er að tóna??? Er það að missa fitu svo vöðvarnir sjáist? Hvenig ætlarðu að byggja upp vöðva með 15 + repsum? Áreitið sem þarf til að byggja upp vöðva er örvun á hröðu vöðvaþráðunum í gegnum þungar lyftingar (3-6 reps).

• Fólk sem hangir yfir þrekstiganum og tekur pínulítil skref á táberginu. Hvað ertu að þjálfa? Neðsta hlutann af kálfanum?? Þú brennir miklu meira á því að stíga vel niður í gegnum hælinn…. Work that booty!!

• Fólk sem setur hlaupabrettið í 15° halla og heldur svo í handföngin meðan það labbar, og hallar sér jafnvel afturábak. Þá ertu að taka tilgang hallans í burtu og brennir örugglega 40% minna en ef þú notar hendurnar og stígur vel í gegnum hælinn.

• “Fitna ég ekki af því að borða fitu?” Fita gerir mann ekki feitan. Líkamsfita er ekki það sama og fita í mat. Of margar hitaeiningar gera mann feitan, og algengast er að þær komi úr viðbjóðslegri mettaðri fitu og sykri hjá meðaljóninum. Góð fita hinsvegar er nauðsynleg fyrir fitutap, uppbyggingu og kemur við sögu í nánast allri líkamsstarfsemi. Af hverju eru þá ekki fleiri að borða góða fitu? Svo á fólk ekki í vandræðum með að gúffa í sig einni með öllu með mettaðri fitu fyrir allan peninginn.

• “Misstu 10 kg á 20 dögum”, “ Garanterað 6kg tap á 3 vikum” svona hljóða margar tímaritafyrirsagnir og auglýsingar um fitubrennslutöflur, megrunarkúra o.fl. Af hverju er fókusinn alltaf á kílóin? Þeir sem lyfta eiga erfiðara með að losna við kílóin, en sentimetrarnir hins vegar hrynja af með aukinni grunnbrennslu. Eru það ekki þeir sem skipta meira máli? Er kílóatalan tattúveruð á ennið á fólki? Nei, Hvaða andsk… máli skiptir þá hvað maður er þungur?

• “1500 hitaeiningar á dag til að missa fitu”. Er alveg sama hvort þú sért 110 kg karlmaður eða 60 kg kona? Eru hitaeiningar semsagt “one size fits all”? Eyðir stærri vél í bíl ekki meira bensíni? Það sama gildir um líkamann, stærri og þyngri líkami brennir meiru og þarf því meiri orku.

• “Ég verð bara extra-dugleg(ur) í ræktinni í næstu viku, þá er allt í lagi þó ég svindli á mataræðinu”. Það er ekki hægt að æfa af sér heila sukkhelgi eða 3-4 svindl á viku. Þá er einfaldlega verið að moka í botnlausa fötu og í besta falli stendur fólk í stað, en í flestum tilfellum fer það mörg skref afturábak í árangri. Hversu margir standa svo í raun við stóru orðin???

• Afsakanir!!! “Ég hef bara ekki tíma til að fara í ræktina.” Ekki það nei? Er brjálað að gera hjá þér kl. 0600? Sama fólk er yfirleitt á kafi í öllum sjónvarpsþáttum undir sólinni. “Mér finnst bara kjúklingur/fiskur/hafragrautur ekki góður á bragðið.” “Mér finnst svo leiðinlegt að borða kjúkling/fisk/eggjahvítur…” Eins og Gunnery Sergeant Hartmann sagði í Full Metal Jacket: "Were you born a fat, slimy, scumbag puke piece o' shit, Private Pyle, or did you have to work on it? " Fólk fær ekki bréf frá Hagstofunni sem segir að það sé orðið feitt og úr formi. Það gerist yfir langan tíma. Að ná lýsinu af sér krefst vinnu alveg eins og það tók vinnu að koma því á skrokkinn.

• Konur sem mæta málaðar í ræktina kl. 0600. Hvenær vakna þær eiginlega? Hver er eiginlega tilgangurinn? Ef þér er alvara með þjálfuninni þá svitnarðu eins og gylta á fengitímanum og viltu þá líta út eins og Jókerinn með maskaratauma? Eða ertu í ræktinni til að fara á skíðavélina í 20 mínútur og dúlla þér svo í boltunum á eftir?


Skyggnst á bak við tjöldin

Í framhaldi af síðasta pistli um einkennilega hegðun í ræktinni fer Naglinn nú bakvið tjöldin, nefnilega inn í búningsklefana. Ástæðan fyrir bloggleysi undanfarinna daga er dvöl Naglans í ríki Elísabetar Bretadrottningar og það var nokkuð athyglisvert að bera hegðun þegna hennar hátignar saman við þegna Margrétar Þórhildar Danadrottningar.

Þar sem Naglinn er eingöngu í kvennaklefunum er hún eingöngu frásögu fær um hegðun kvenna. Danskar kvinnur eru svipaðar okkur Frónbúum þegar kemur að nekt. Þær snara sér hiklaust úr spjörunum fyrir framan kóng og prest, og valsa um á skonsunni inn og út úr sturtuklefanum sem allir eru galopnir með sturtum hlið við hlið eins og þekkist heima. Þurrkun og íklæðning eru heldur ekki feimnismál og sprangað um á brókinni meðan verið er að greiða hár og snurfusa sig.

En annað er uppi á teningnum hjá Tjallanum. Það er eins og að koma í búningsklefa á Viktoríutímanum, slík er blygðunarkenndin.
Í fyrsta lagi eru sturtuklefarnir allir lokaðir, svo hver og ein er með sinn eigin klefa sem lokast.
Í öðru lagi má ekki sjást í neitt hold á meðan farið er í og úr spjörunum.
Naglinn upplifði magnað atriði hvað þetta varðar í síðustu dvöl sinni. Kona ein fór í svartan ruslapoka sem var klipptur í sundur á lokaða endanum á meðan hún klæddi sig úr fötunum. Svo virtist sem hún væri ekki með handklæði meðferðis til að hylja nektina, spurning hvort hún "air-dry" eins og Cuba Gooding Jr. í Jerry Maguire.
Önnur vinkona fór inn í sturtuklefann í öllum fötunum og kom svo fram í öðrum fötum og öll hrein og fín.
Semsagt hún hefur baðað sig OG skipt um föt inni í sturtuklefanum. Róleg í spéhræðsluna vinkona.
Naglinn tekur ekki þátt í svona feluleikjum og fann virkilega fyrir óþægilegum augnráðum breskra kynsystra sinna.

Fjölbreytileiki mannlífsins er líka heillandi viðfangsefni.
Á Íslandi eru 99.9 % lútherskir Aríar svo okkur gefst sjaldan tækifæri til að skyggnast inn í aðra menningarheima.
Til dæmis eru múslimakonur í DK með slæðurnar í ræktinni, alveg sama þó það sé löðursveittur spinningtími. Naglinn getur ekki einu sinni verið með derhúfu né hárband í ræktinni sökum hita og óþæginda.
Þær fara meira að segja í sturtu með slæðurnar. Svolítið kómískt að sjá nakta konu með slæðu í sturtu.

Eins og sjá má hefur Naglinn mjög gaman að því að spá í náunganum í ræktinni.


Óviðeigandi hegðun í ræktinni

Naglinn hefur séð ýmislegt í ræktinni í gegnum tíðina.
Má þar nefna fjölbreyttan klæðaburð, nýstárlegar æfingar, sérkennileg hljóð og aðra tilburði.

En aldrei hefur Naglinn orðið vitni að því að fólk mæti með börnin sín í salinn á æfingu.

Undanfarna daga hefur maður mætt í ræktina með drenginn sinn sem er c.a 6 - 8 mánaða gamall, stillt honum upp við lyftingabekk og farið svo að pumpa sjálfur. Drengurinn er látinn hanga á bekkbrúninni tottandi snuðið og pabbinn sinnir honum síðan á milli setta.
Það tók svo steininn úr þegar hann notaði drenginn sem mótstöðu í kviðæfingum.

Getur svonalagað verið leyfilegt? Stöðin hlýtur að vera með einhverjar reglur um börn í lyftingasalnum.

Eitt er að koma ræktinni inn "no matter what" en fyrr má nú aldeils fyrr vera.
Naglinn veltir fyrir sér hvort ekki megi flokka slíka meðferð á drengnum undir barnaverndarmál, því þarna er verið að setja hann í lífshættulegar aðstæður. Hvað ef einhver missir lóð ofan á barnið, eða hrasar um það með lóð í höndunum? Hann gæti hæglega kramist til dauða undir einni 20 kg lóðaplötu.

Naglinn hefur sent manninum hneykslunaraugnaráð og tekið eftir augngotum frá öðrum ræktarrottum hversu óviðeigandi öllum þykir þetta atferli mannsins.


Hrrrikalegur Nagli

Naglinn fékk þokkalega kommentið frá einum þjálfaranum í ræktinni hér í DK núna um daginn.

Þar sem Naglinn er ennþá bara rétt mellufær á dönsku fór þetta samtal fram á engilsaxnesku.

Þjálfarinn: "I've been meaning to ask you, what do you train for?"
Naglinn: "I do fitness competitions, so I train mainly for muscle building."
Þjálfarinn: "OK, because you put the guys here to shame with the weights you're pulling, you're lifting heavier than many of them. You don't really see women lift this heavy here in Denmark."
Naglinn: "No, I know, it's sad, women in general don't lift heavy."
Þjálfarinn: "You mean properly..."
Naglinn: "Your words, not mine."

Naglanum finnst hrikalega hvetjandi að fá svona komment og með það í vasanum tvíeflist öll á æfingum.


Varúð!! Bölsót frá Naglanum

Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu þá er fátt sem pirrar Naglann jafn mikið eins og yfirheyrslur um mataræði Naglans.  Í gegnum tíðina hefur Naglinn komist að því að það virðist vekja ómælda forvitni hjá náunganum þegar dregið er upp Tupperware box sem inniheldur ekki samloku eða pastasull.  Kjúklingur og hýðisgrjón, eða nautakjöt og möndlur, eða fiskur og salat gefur skotleyfi á spurningaflóð um matarvenjur og Naglinn lítur á slíkt sem afskiptasemi og leiðist fátt meira en að útskýra hvað sé að fara ofan í mallann. Sökum þessa hefur Naglinn vanið sig á að borða í einrúmi, að undanskilinni nánustu fjölskyldu sem spáir ekki lengur í fæðuval Naglans.

Hins vegar lenti Naglinn í þeirri stöðu um daginn að neyðast til að snæða kvöldmatinn fyrir framan konu sem Naglinn var að hitta í annað eða þriðja skiptið. Naglinn reiddi fram kjúlla með hnetusmjöri og spínatsalati, og þá var eins og skrúfað frá krana af spurningum sem dundu á Naglanum.   

Hvað er þetta sem þú ert að borða? Af hverju borðarðu þetta?  Borðarðu aldrei brauð?  Heldurðu að þú getir ekki borðað svona og svona brauð?  Borðarðu alltaf það sama? Langar þig aldrei í "normal" mat?  

Naglinn vildi auðvitað ekki vera dóni og svaraði öllum spurningum samviskusamlega, þrátt fyrir gríðarlegan pirring og að líða eins og múslima í yfirheyrsluklefa í Guantánamo.  

En þegar kom spurningin "Hvað gerist ef þú borðar eitthvað óhollt?", þá gat Naglinn ekki meir og horfði djúpt í augun á konunni og sagði:  " Þá springur alheimurinn!!"  

Heimskuleg spurning krefst heimskulegs svars.

   

 


Vægtlöftning i Köbenhavn

Afsakið þögnina.  Naglinn elur nú manninn í Kóngsins Köbenhavn og hefur því haft lítinn tíma til skrifta.  Það stendur allt til bóta blómin mín Cool.

 Naglinn hefur prófað tvær líkamsræktarstöðvar í vikunni.  Önnur er í hverfinu en þar vantar ansi mikið uppá fyrir alvöru lyftingar, engin hnébeygja, ekkert deadlift o.s.frv.  Hún er meira stíluð inná pallatíma og spinning samfélagið, enda mætir liðið í spinning tíma í massífum útbúnaði.  Við erum að tala um spandex frá toppi til táar og m.a.s í pedalaskóm.  Rólegir í metnaðinn í 40 mínútna spinning tíma!!

Naglinn gerði sér ferð þvert yfir borgina til að taka fætur í vel útbúinni stöð, enda í eigu Íslendinga Wink  Þar var allt til alls fyrir sigggróna lófa og hungraða hamstring vöðva.  En það kom Naglanum á óvart hversu fáir voru að æfa, og það á "prime time".  Á þessum tíma eru Laugar eins og Grand Central Station.  Kannski er Danskurinn ekki árrisull Woundering.  Naglinn fær á tilfinninguna að lyftingasamfélagið hér sé ansi afmarkað við þá allra hörðustu og að Fru Hansen sé ekki mikið að rífa í lóðin.

Kommer i lys. 

 

  

 


Morgunleikfimi á RÚV

Naglanum þykir það þyngra en tárum taki að einn liður í sparnaðaraðgerðum RÚV ohf. sé að taka morgunleikfimina af dagskrá.
Líkamsræktarstöðvar henta ekki öllum, og í þessu hörmulega árferði hafa ekki allir tök á að kaupa sér líkamsræktarkort.
Má þar sérstaklega nefna eldri kynslóð þessa lands sem í sveita síns andlits hefur stritað fyrir salti í grautinn en á nú að ræna ellílífeyrinum til að borga undir þessar hýenur sem hanga í felum úti í heimi og spiluðu kapítalísk rassgöt sín úr buxunum.

Fyrrum vinnuveitandi Naglans, Gunnar Guðmundsson lungnalæknir benti á í Morgunblaðinu að margir af hans skjólstæðingum eru eldra fólk sem verður að hreyfa sig til að halda lungnasjúkdómum sínum í skefjum.
Hann mælir með morgunleikfiminni við sína sjúklinga og margir hreinlega halda sér á lífi með þeirri ástundun.

Væri ekki nær að leggja niður þetta þulustarf í Ríkissjónvarpinu, nú eða láta Palla fá ódýrari bíl til að komast til og frá vinnu?


Don't stop me now....

Naglinn hefur girt sig í brók, bitið í skjaldarrendur og rifið sig upp úr eymdinni og volæðinu.  Þegar tekst ekki nógu vel upp er ekkert annað í stöðunni en að halda áfram og leggja sig enn harðar fram til að betur gangi næst. 

Það er nauðsynlegt að endurskoða síðasta plan: hvað var að virka, hvað var ekki að virka og nýta sér það til að sjá hvernig væri betra að haga hlutunum í næsta preppi. 

Naglinn hefur nefnilega tekið þá ákvörðun að keppa um páskana.  Ekki er hægt að láta hryggðarmyndina sem blasti við almúganum í Háskólabíó vera síðasta orð Naglans. 
Nú er planið að halda sér í þessari þyngd og byrja svo aftur að skera í janúar. 
Sá undirbúningur ætti vonandi að verða auðveldari en síðast þar sem minna er af mör núna.

Naglinn tók einn dag í svindl og svínarí en var mætt á brettið kl. 0600 á mánudagsmorgun, og búin að taka lyftingarnar af fullum krafti alla vikuna.  Var komin með fráhvarfseinkenni frá beygjum enda ekki tekið fætur í meira en viku og Naglinn elskar að taka fætur.  Það er eitthvað svo fullnægjandi við að djöflast á staurunum.

Naglinn hefur meira að segja fengið nýja gulrót til að halda skrokknum í lagi en Naglinn var beðin um að vera bodypaint módel fyrir nema í förðunarskóla.  Svo Naglinn verður til sýnis aftur, og í þetta sinn máluð frá hvirfli til ilja og það á túttunum.... maður fékk þó að vera í brjósthaldara í Fitnessinu..... FootinMouth


Eftir mót

Það er lágt risið á Naglanum þessa dagana.  Myndirnar frá keppninni voru eins og köld vatnsgusa og fjandinn hafi það hvað veruleikinn getur stungið.  Naglinn átti ekkert erindi upp á þetta svið, og hefði betur hætt við að keppa. 
Það er móðgun við keppnina að mæta svona útlítandi til leiks og síðasta sætið því verðskuldað. 
Í raun hefði Naglinn átt að fá reisupassann strax í fyrstu lotu: "Heyrðu vina mín, þú ert að ruglast.  Þetta er keppni í fitness, ekki fatness."

Naglinn naut sín engan veginn á þessu móti og leið illa í eigin skinni allan tímann.  Það er ekki gott ástand þegar maður þarf að standa á sviði.
Það er bitur reynsla sem fer í reynslubankann að þessu sinni.

Naglinn vill þó óska Auði innilega til hamingju með 2. sætið.  Stúlkan sú sýndi gríðarlegar bætingar og var vel að þessum verðlaunum komin.

Það voru engar ytri aðstæður sem hægt er að kenna um að Naglinn var ekki betri á þessu móti.  Skurðurinn var hreinlega ekki að skila sér þrátt fyrir gríðarlega vinnu í 22 vikur.  Líklega var bara af of miklu að taka í upphafi til að ná þessu. Líkaminn var líka lengi að taka við sér og allt gekk mjög hægt.
Það eru mikil vonbrigði eftir alla þessa vinnu og miklar fórnir að hafa ekki getað gert betur. 

Sálin er viðkvæm, sjálfsmyndin í molum og viðgerð stendur yfir.  Á meðan mun Naglinn ekki gefa út neinar yfirlýsingar um mót í framtíðinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ragnhildur Þórðardóttir
Ragnhildur Þórðardóttir

Hér læt ég gamminn geysa um ýmislegt sem tengist hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og hollu mataræði í formi pistla og fróðleiks.  Mín lífsviðhorf eru að góð heilsa er gulli betri og að í hraustum líkama býr heilbrigð sál. 
Ég tek einnig að mér fjarþjálfun.

Allar upplýsingar um fjarþjálfun á www.ragganagli.com

Spurt er

Hvað gerirðu margar brennsluæfingar á viku?

Nýjustu myndir

  • front-plank-exercise
  • binge_barbie
  • sleep-deprived
  • phpwWI9BvAM
  • eating too much

Aðrir vaðlarar

Bækur

Góðar bækur

  • Bók: A Thousand Splendid suns
    Khaled Hosseini: A Thousand Splendid suns
    Frábær bók en jafnframt mjög átakanleg. Þurfti að loka henni nokkrum sinnum og jafna mig því lýsingarnar á heimilisofbeldinu voru einum of grafískar fyrir minn smekk.
    *****
  • Bók: Kite runner
    Khaled Hosseini: Kite runner
    Algjör snilld. Fjallar um tvo drengi í Afganistan í kringum 1970 áður en allt fór til fjandans þar í landi.
    *****
  • Bók: On beauty
    Zadie Smith: On beauty
    ***
  • Bók: Espresso tales
    Alexander McCall Smith: Espresso tales
    Framhald af 44 Scotland Street. Er að lesa hana núna.
  • Bók: 44 Scotland Street
    Alexander McCall Smith: 44 Scotland Street
    Gerist í Edinborg og þvílík nostalgía sem ég fæ við að lesa þessa bók enda kannast maður við alla staðina sem fjallað er um.
    ****
  • Bók: The time traveller's wife
    Audrey Niffenegger: The time traveller's wife
    Með betri bókum sem ég hef lesið. Falleg ástarsaga um mann og konu sem þurfa að díla við tímaflakk mannsins.
    ****
  • Bók: We need to talk about Kevin
    Lionel Shriver: We need to talk about Kevin
    Hugleiðingar móður fjöldamorðingja um áhrif uppeldis og erfða. Mjög athyglisverð lesning, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á "nature-nurture" deilunni.
    *****

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 72
  • Frá upphafi: 549067

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 69
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband