Færsluflokkur: Naglinn

3 dagar í mót

Naglinn hefur ákveðið að neikvæðnin sem ráðið hefur ríkjum undanfarna daga sé nú komin í verkfall. 

Hösbandið hefur þurft að hlusta á nokkur dramaköst um ósanngirni heimsins, lögbann á eigin skrokk og að hætt sé við þetta allt saman. Blendnar tilfinningar gagnvart þessu móti hafa fengið að synda um óáreittar í hausnum en nú verða það eingöngu bjartsýnin og jákvæðnin sem fá pláss í gráa efninu.

Naglinn ætlar að skemmta sér og hafa gaman á mótinu á laugardaginn, innan um frábærar stelpur sem hafa reynst Naglanum frábærlega og vera stolt af sjálfri sér. 
Naglinn er búin að gefa sig 100% í þetta og það er það sem máli skiptir. 

Þó að skurðurinn sé ekki eins og lagt var upp með í þetta skiptið, þá fer þessi undirbúningur í reynslubankann og verður tekið út úr honum fyrir næsta mót.  Sumum tekst að ná toppformi á sínu fyrsta og öðru móti, fyrir aðra tekur það lengri tíma að finna út hvað virkar á þeirra líkama og hvað ekki.  Því við erum svo langt frá því að vera "one size fits all" og í þessum bransa þarf oft að prófa margar aðferðir áður en markmiðinu er náð. 

Það þýðir ekkert að hugsa "hefði ég getað brennt meira, hefði ég getað byrjað fyrr, hefði ég getað borðað öðruvísi, hefði ég ekki átt að bæta svona miklu á mig í off-seasoninu....."  should have, would have, could have.... 

Það er svo mikilvægt að fara í gegnum allt undirbúningsferlið og læra af mistökunum og nýta sér þá reynslu fyrir undirbúning undir næsta mót.  Stefnan er tekin á páskamótið. 

Naglinn er á mun betri stað núna til að hefja undirbúning en síðast og vonast því til að verða betri um páskana.

Sjáumst á laugardaginn! Smile


Naglinn með pung

Naglinn fékk eitt mesta hrós ævi sinnar fyrir stuttu. 

Þekktur vaxtarræktarkappi lýsti yfir ánægju sinni með greinaskrif Naglans og sagði svo:  "Það mætti halda að þú værir með pung.  Ég hef aldrei heyrt neina konu tala um lyftingar eins og þú."

Naglinn varð verulega upp með sér við þessi orð, enda alltaf talið að testósterón magnið í líkama Naglans sé mun meira en hjá meðalkonu, og það án allrar utanaðkomandi aðstoðar Wink.


Playlistar Naglans

Nokkrir hafa spurst fyrir um lagaval Naglans á iPodnum. Það er allt saman mjög þróað og útpælt hjá Naglanum, enda fer það eftir tegund æfingar hvað dynur á hljóðhimnunum.

Hér koma nokkur dæmi. Athugið að listinn er alls ekki tæmandi.

HIIT (High-Intensity-interval-training)- sprettir

Hér kýs Naglinn hart aggressíft graðhestarokk með grípandi viðlögum þar sem hægt er að spretta úr spori og jafnvel taka luft-trommur í leiðinni.

Ramble on – Led Zeppelin
Whole lotta love - Led Zeppelin
D’yer maker – Led Zeppelin
Twisted – Skunk Anansie
Paralyzer – Finger Eleven
Du hast - Rammstein
Enter Sandman – Metallica
Let me entertain you – Robbie Williams
Long train running – Doobie brothers
Keep the faith – Bon Jovi
You give love a bad name – Bon Jovi
Hiroshima – Bubbi
I’m gonna be (500 miles) – Proclaimers
Poison – Alice Cooper
Paradise by the dashboard light – Meatloaf
Sex is on fire – Kings of leon
Holding out for a hero – Bonnie Tyler

Tröppuhlaup – Stöðvaþjálfun:

Hér er nauðsynlegt að hafa dúndrandi takt í eyrunum.

Summer of ’69 - Bryan Adams
Wild dances - Ruslana
Footloose
Gaggó vest – Eiríkur Hauksson
Firestarter – Prodigy
Smack my bitch up – Prodigy
Don’t stop me now – Queen

SS cardio:

Hér vill Naglinn hlusta á gamla og góða popptónlist, píkupopp, 80’s, 90's o.s.frv

Sultans of swing - Dire Straits
Alls konar lög með Beyoncé/Destiny’s child/Kelly Rowland
Flashdance
Fame
St. elmos fire
Take on me – A-ha
Fjöllin hafa vakað – Bubbi
Nutbush city limits – Ike & Tina Turner
Beat it, Thriller, Billie Jean o.fl lög með Michael Jackson
Modern love – David Bowie
Af litlum neista – Pálmi Gunnarsson
Fergus sings the blues – Deacon blue
U can't touch this - MC Hammer
Love & Pride - King

Lyftingar:

Hér finnst Naglanum best að hlusta á gamalt og gott rokk, helst heilar plötur með klassískum böndum á borð við:

Radiohead
Pearl Jam
Mugison
Live
Coldplay


10 dagar....

Naglinn þrammar um heimilið og þvær þvotta og vaskar upp á Leoncie hælunum til að æfa göngulagið.

Pósurnar æfðar í pósutímum, heima, á almenningssalernum, í búningsklefum og hvar sem næst í spegil.

Trimform-að fram í rauðan dauðann.

Æft eins og skepna og borðað eins og kroppaður fuglsungi.

Uppfull af peppi frá lesendum síðunnar og bjartsýnin að ná yfirhöndinni.

I think we're on baby!!


Hver pantaði þennan snjó?

Það er fátt sem fer eins mikið í taugarnar á Naglanum og snjór, Naglinn gjörsamlega ÞOLIR ekki snjókomu og vetrarfærð. 
Eins og kom fram í pistli ekki alls fyrir löngu er þessi andúð tilkomin vegna erfiðleika að komast frá A til B, og þá aðallega að heiman í ræktina. 
Þessi martröð varð að veruleika þegar Naglinn og hösbandið hugðust leggja í hann fyrir allar aldir í morgun. 
Þegar litið var út um gluggann blasti við ömurlegur veruleiki þessa lands....allt á kafi í snjó!!! Nú lágu Danir í því.  Hösbandið er nefnilega haldinn þeirri sjálfsblekkingu að hann sé sautján ára og keyrir um á Bimma sem er svo lágur að það eru vandræði að komast yfir hraðahindranir. 
Ekki nóg með það, heldur er kvikindið afturhjóladrifinn OG á Low-profile sumardekkjumAngry.   

Ítrekaðar tilraunir voru gerðar til að komast út úr hverfinu sem er allt saman upp í móti, og alltaf spólaði gelgjubíllinn í miðri brekku. Naglinn sá stefna í sitt óvænna um hríð, að hjónin myndu hreinlega ekki komast í ræktina..... og bullandi fráhvarfseinkenni byrjuðu strax að gera vart við sig.  Fíkillinn þarf að fá skammtinn sinn.  

Að lokum komst kvikindið þó loks upp brekkuna eftir að Naglinn hafði grýtt sér út úr bílnum á ferð til að ýta síðasta spölinn undir skæðadrífu af snjó frá spólandi dekkjunum og bullandi útblæstri úr pústinu.  Í ræktina skyldi Naglinn, sama þó það kostaði lungnaþembu vegna koltvísýringsmengunar.

Naglinn vill setja lögbann á snjó!!   


AfmælisNagli

Naglinn ári eldri í dag, og vonandi eitthvað vitrari.

Ekki fær Naglinn súkkulaðiköku í tilefni dagsins þetta árið frekar en í fyrra, enda skurður í algleymingi þessa dagana.  Kjúklingur og blómkál verður afmælisdinnerinn. 
Ekki að það skipti Naglann neinu máli enda sáraómerkilegur afmælisdagur, 29 ára, og það á miðvikudegi.

En Naglinn lofar lesendum því að á næsta ári verður sko enginn skurður enda þristurinn mættur og þá verður fagnað að fornum sið með húllumhæi, kræsingum og já, jafnvel guðaveigum Wizard
Þangað til ætlar Naglinn að njóta þess að vera ennþá tuttugu og eitthvað. 


Áskoranir

Naglinn hefur ákveðið að skora á tvo einstaklinga sem standa mér nærri til keppnisþátttöku á næstu misserum. 
Naglinn telur að slík markmið muni gera þjálfun þeirra markvissari og að hún muni í kjölfarið fela í sér meiri tilgang og gleði. 

Áskorun 1:  Naglinn skorar á Hösbandið (a.k.a maðurinn sem gefur ekki stefnuljós) að taka þátt í Þrekmeistaranum vorið 2009.

Áskorun 2:  Naglinn skorar á Frænkuna (sem er nýbyrjuð að hlaupa í nýju Asics skónum sínum) að taka þátt í 10 km hlaupi Reykjavíkur maraþons í ágúst 2009.

Taki þau þessum áskorunum verða þau menn að meiri og mun hróður þeirra berast víða. 
Afköst þeirra munu blása metnaði í brjóst þeirra nánustu og jafnvel hvetja aðra til hreyfingar og heilsusamlegs lífernis.

Taki þau ekki áskorunum þessum, munu þau verða að háði og spotti hvar sem þau halla höfði sínu og vera úthrópuð sem bleyður og hugleysingjar.

 


Naglinn klukkaður

Naglinn fékk klukk frá bloggvinkonu sinni, henni M. Að sjálfsögðu hlýðir Naglinn því.

4 störf sem ég hef unnið: Morgunblaðið, Vodafone í Edinborg, rannsóknir á Landspítala, Rannsóknastofnun um lyfjamál

4 uppáhaldsmyndir: úff, þær eru svo margar.... jæja... the lives of others, nánast allar myndir Coen bræðra, the edge of heaven, the departed

4 staðir sem ég hef búið á: Reykjavík, Salamanca, Edinborg, Guildford

4 uppáhalds sjónvarpsþættir: the Shield, the Wire, Gray's Anatomy, Desperate Housewives

4 staðir heimsóttir í fríi : New York, París, Róm, Cannes

4 síður fyrir utan blog.is : Siouxcountry.com, Musculardevelopment.com, vöðvafikn.net, Facebook

4 uppáhalds matarkyns : risotto, marokkóskt, tyrkneskt, Paella

4 uppáhalds bækur: Time traveller's wife, We need to talk about Kevin, Thousand splendid suns, Kaldaljós

Naglinn klukkar Millu, Nönnu fitness, Auðina og Halldóru Birgis.


Ný skæði

Í gær fékk Naglinn splunkunýja og sjóðandi heita Asics beint frá USA. Af því Naglinn er svo mikil skóhóra var ekki annað til umræðu en nýjasta týpan af Nimbus, numero 10 baby.

Þvílíkur munur að hlaupa, enda gömlu ræflarnir búnir að leggja mörg hundruð kílómetra undir hælinn og púðarnir orðnir handónýtir og Naglann farið að verkja í hné og sköflunga.

Naglinn bókstaflega sveif á brettinu í morgun á nýjum skæðunum, og keyrði á sprettina upp í áður óþekktar hæðir, 17 km/klst í 3°halla, og það þrátt fyrir 5 tíma svefn sökum útstáelsis í gærkvöldi.

Púlsinn fór upp í 96% í hörðustu sprettunum, en það hefur ekki gerst síðan í Þrekmeistaranum forðum daga.

Naglinn mælir með að fólk skipti um hlaupaskó á 9-12 mánaða fresti, sérstaklega þegar mikið mæðir á þeim greyjunum.


Le gym en Paris

Bon jour mon cheries.

París er yndisleg, algjörlega bjútíful borg.

Naglinn fór á stúfana að leita að líkamsræktarstöð um leið og rennt var inn í borgina.
Vopnuð niðurstöðum gúgglunar örkuðu Naglinn og hösbandið um hverfið og fundu eina sem hafði litið vel út á netinu, en að sjálfsögðu er ekki allt gull sem glóir, því engin lóð voru í stöðinni, aðeins tæki.
Þá var haldið á næsta gúgl, og þar var sama uppi á teningnum, engin lóð!!! og Naglanum tjáð að næsta slíka stöð væri talsverðan spöl í burtu. Frakkinn greinilega ekki að rífa of hart í járnið!!!

Svo Naglinn kyngdi stoltinu og framdi þau helgispjöll að hamast eingöngu í tækjum í morgun.
Aðrir meðlimir í tækjasalnum voru eingöngu karlkyns og Naglinn hefur ekki áður fundið jafn sterkt fyrir að vera nafli athyglinnar. Fransararnir greinilega ekki vanir dömum sem taka á því, enda voru þeir sjálfir ekki að toppa sig neitt. Einn var meira að segja með dagblað með sér sem hann las á milli setta í tækinu.

Naglinn skemmti sér hins vegar milli setta við að fylgjast með Jane Fonda leikfimitímanum í salnum við hliðina, og fannst magnað að sjá að ýmiss klæðnaður frá þeim tíma sé ennþá í góðu gildi hjá Frakkanum, t.d ennis svitaband og leikfimibolur utan yfir hjólabuxur.

Í brennslu eftir átökin var einnig boðið upp á skemmtiatriði, að þessu sinni var það sundleikfimi þar sem kennarinn var miðaldra karlmaður sem var örugglega Þjóðverji, ekki ósvipaður þjálfara þýska handbolta landsliðsins með yfirvaraskegg og grátt hár í tagli í stuttbuxum upp í görn.
Þarna stóð félaginn á bakkanum og sýndi kellingunum ýmsar hreyfingar sem þær áttu að framkvæma ofan í vatninu. Oftar en ekki leit hann út eins og hann væri að reyna að kúka.
Naglinn skemmti sér hreint konunglega og tíminn á þrekstiganum hefur aldrei áður liðið svona hratt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ragnhildur Þórðardóttir
Ragnhildur Þórðardóttir

Hér læt ég gamminn geysa um ýmislegt sem tengist hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og hollu mataræði í formi pistla og fróðleiks.  Mín lífsviðhorf eru að góð heilsa er gulli betri og að í hraustum líkama býr heilbrigð sál. 
Ég tek einnig að mér fjarþjálfun.

Allar upplýsingar um fjarþjálfun á www.ragganagli.com

Spurt er

Hvað gerirðu margar brennsluæfingar á viku?

Nýjustu myndir

  • front-plank-exercise
  • binge_barbie
  • sleep-deprived
  • phpwWI9BvAM
  • eating too much

Aðrir vaðlarar

Bækur

Góðar bækur

  • Bók: A Thousand Splendid suns
    Khaled Hosseini: A Thousand Splendid suns
    Frábær bók en jafnframt mjög átakanleg. Þurfti að loka henni nokkrum sinnum og jafna mig því lýsingarnar á heimilisofbeldinu voru einum of grafískar fyrir minn smekk.
    *****
  • Bók: Kite runner
    Khaled Hosseini: Kite runner
    Algjör snilld. Fjallar um tvo drengi í Afganistan í kringum 1970 áður en allt fór til fjandans þar í landi.
    *****
  • Bók: On beauty
    Zadie Smith: On beauty
    ***
  • Bók: Espresso tales
    Alexander McCall Smith: Espresso tales
    Framhald af 44 Scotland Street. Er að lesa hana núna.
  • Bók: 44 Scotland Street
    Alexander McCall Smith: 44 Scotland Street
    Gerist í Edinborg og þvílík nostalgía sem ég fæ við að lesa þessa bók enda kannast maður við alla staðina sem fjallað er um.
    ****
  • Bók: The time traveller's wife
    Audrey Niffenegger: The time traveller's wife
    Með betri bókum sem ég hef lesið. Falleg ástarsaga um mann og konu sem þurfa að díla við tímaflakk mannsins.
    ****
  • Bók: We need to talk about Kevin
    Lionel Shriver: We need to talk about Kevin
    Hugleiðingar móður fjöldamorðingja um áhrif uppeldis og erfða. Mjög athyglisverð lesning, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á "nature-nurture" deilunni.
    *****

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband