Færsluflokkur: Dægurmál

Keppnisdagur Naglans

Jæja þá er dagurinn runninn upp.
Dagurinn sem líf Naglans hefur snúist um síðustu mánuðina.
Eftir 7 tíma mun Naglinn skakklappast á hælum uppi á sviði í Austurbæ og leyfa hundruðum að grandskoða rassinn. Spenna, kvíði og tilhlökkun hrærast í bland inni í Naglanum þessa stundina.

Þetta ferli hefur allt verið gríðarlega lærdómsríkt, sérstaklega að merkja breytingar á líkamanum og árangur af ströngu mataræði og æfingum. Eins að sjá hvað virkar fyrir minn líkama og hvað ekki, því engir tveir líkamar eru eins og það sem hentar einum þarf ekki endilega að henta mér. Þess vegna verða keppendur alltaf betri og betri með hverju móti því þeir læra á líkamann sinn í gegnum marga niðurskurði.

Það sem kom mér mikið á óvart í undirbúningnum er hversu allir eru boðnir og búnir að aðstoða og hjálpa við allt mögulegt sem viðkemur keppninni eins og: mataræði, æfingar, lit, pósur, bikiní.
Ég hef fengið ómetanlegan stuðning og aðstoð frá öðrum reyndari keppendum: Ingunni, Heiðrúnu, Sollu og Önnu Bellu sem allar hafa verið óþreytandi að svara endalausum spurningum Naglans, og hjálpað með bikiní, ásetningu á lit og peppað mann andlega.
Ástarþakkir elskurnar mínar fyrir alla hjálpina!!

Hjartans þakkir allir sem hafa óskað mér góðs gengis, stuðningur ykkar er mér mikils virði. Ég er langt frá því að vera hætt að blogga, þið losnið sko ekki svo auðveldlega við nöldrið í Naglanum um heilbrigðan lífsstíl.

Góða helgi !!


Að uppskera eins og til er sáð

Mikið er gaman að uppskera árangur erfiðis síns.

Naglinn fór í mælingu áðan og niðurstaðan var gleðileg: 58 kg og 9% af því er mör.
Markmiðið var að komast í 10% fyrir mót og það hafðist og gott betur.
Naglinn er því 91% fat-free....hahahaha...góður!!
Síðan síðastu mælingu eru 2,5 cm farnir af vömbinni, 2 cm af afturenda en öllu verra er að brjóstin hafa snarminnkað og ekki var nú miklu til að dreifa fyrir. Naglinn er því bara með bringu núna, ekki brjóst.

Nú er bara að vona að vatnslosun gangi samkvæmt áætlun svo það sjáist nú einhver meiri skurður.
Hefði viljað vera með meira kjöt á skrokknum en það kemur bara á næsta móti.
Einhvers staðar verður maður að byrja, ekki satt??

Nokkrir hafa spurt á hvaða sæti Naglinn stefni á, og slíkar spurningar valda Naglanum hugarangri þar sem væntingar annarra til Naglans eru meiri en Naglinn getur staðið undir.

Naglinn stefnir ekki á neitt sæti á laugardaginn enda væru slíkir hugarórar veruleikafirring þar sem keppinautar Naglans eru hver annarri glæsilegri og þaulreyndar í bransanum.

Bara það að stíga hálfberrösuð upp á sviðið í Austurbæ á laugardaginn, í besta formi lífs míns verður sigur Naglans.

En bíðið bara, Naglinn er rétt að byrja.... líkt og Jóhanna sagði forðum daga: Minn tími mun koma !!


Eftir keppni

 

Ég hlakka svo til, ég hlakka alltaf svo til.....

 

Að sinna rónanum í mér með rauðvínsdrykkju og öðrum ósóma

 

Að sinna átvaglinu í mér: There's a fat woman inside me screaming for chocolate

 

Að minnka helv%&## brennsluna og einbeita mér að lyftingum

 

Að minnka æfingar úr 12-14 sinnum í viku

 

Að fara í Bónus og kaupa eitthvað annað en kjúkling, egg og brokkolí

 

Að geta borðað sósur með mat aftur:  salsasósa, tómatsósa, teriyaki, tzatziki.... að borða þurrar bringur er álíka spennandi og að tyggja trjábörk

 

Að geta borðað ávexti aftur.  Sérstaklega banana sem komu skyndilega aftur inn í líf mitt fyrir nokkrum mánuðum eftir 6 ára fjarveru. 

 

Að minnka eggjahvítuátið úr 84 hvítum á viku

 

Að fá aftur Myoplex með kaffidufti og karamellusírópi (sykurlausu auðvitað)

 

Að setja rúsínur í hafragrautinn aftur

 

Að fá aftur nammidaga, sem héðan í frá verða nammikvöld: hefst á kvöldmat og endar á miðnætti.  Annað er óumsemjanlegt fyrir hömlulausan mathák eins og Naglann.

 

Að sofa út á sunnudögum

 

 

 


Jóla hvað??

jólahlaðborð

 Nú er tími vellystinga í mat og drykk að renna upp. 

Margir fá eflaust kvíðahnút í magann yfir að kílóin safnist utan á þá yfir jólahátíðirnar, og árangur vetrarins eftir hamagang í ræktinni og strangt mataræði fokinn út í veður og vind.  En það er ekkert lögmál að bæta á sig jólakílóum.   Það er vel hægt að fara á jólahlaðborð og í jólaboð án þess að kýla vömbina. 

 

Á jólahlaðborðum er mjög margt hollt í boði.

 

Veljum:

Lax og síld: bæði eru sneisafull af góðu Omega- 3 fitusýrunum. 

Kalkúnn: mjög magur og prótínríkur,

Sætar kartöflur og kartöflur: góð flókin kolvetni 

Rúgbrauð: er í lagi... í hófi samt

Gufusoðið grænmeti: gulrætur, grænar baunir, blómkál, brokkolí o.s.frv er besta fæða sem við látum ofan í okkur, pakkað af vítamínum og andoxunarefnum

Roast beef: Eitt magrasta kjöt sem völ er á, pakkað af prótíni

Rauðkál: allt í lagi, smá sykur í því en ekkert til að panika yfir

 

Forðumst:

Laufabrauð: steikt upp úr feiti...viðbjóður!!

Sykurhúðaðar kartöflur:  Sykurhúðaðar.... Need I say more?

Rjómasósur: mettuð fita fyrir allan peninginn

Hangikjöt: salt og fita alla leið

Majónes síldarsalöt: Majó er afurð djöfulsins og ætti að forðast í lengstu lög

Paté:  Mikil mettuð fita, dýrafita

Svínasteik/ Purusteik: Dýrafita = hækkað kólesteról=kransæðasjúkdómar

Desert:  Erfitt en sparar fullt af tómum hitaeiningum úr sykri og fitu.  Ef þér finnst þú eiga það skilið, fáðu þér nokkrar skeiðar til að seðja sárustu löngunina, en ekki klára fullan skammt.

Í jólaboðum er allt í lagi að kanna fyrirfam hjá gestgjafanum hvað sé í matinn, og koma þá með sitt eigið kjöt í Tupperware ef við viljum ekki fylla æðarnar af mettaðri fitu úr svíni eða öðru óhollu kjöti.   Þá má nýta góða meðlætið sem gestgjafinn býður upp á en sneitt framhjá óhollustu á borð við rjómasósur, sykurbrúnaðar kartöflur og fengið okkur þeim mun meira af grænmeti, kjöti og laxi.

Munið bara að njóta þess að fá ykkur gott að borða, án þess þó að magnið keyri fram úr hófi.  Með því að velja rétt og borða hæfilega skammta, getum við farið í gegnum allar matarveislurnar án þess að bæta á okkur.

 

Njótið vel !!   

 


Tíminn flýgur

170 klukkutímar í að Naglinn standi hálfberrasaður á sviði í Austurbæ.

173 klukkutímar í að Naglinn fái pizzu, súkkulaði, lakkrís, hnetunammi, rauðvín.....


Rétt hugarfar í líkamsrækt

 

 rétthugarfar

 

Rétt hugarfar skiptir öllu máli þegar kemur að því að ná árangri.  Þetta vita þeir sem hafa náð árangri í sinni þjálfun og líkamsrækt.

Maður þarf að temja sér ákveðinn hugsunarhátt til þess að ná langt í þjálfun, því stífar æfingar eru ekki bara líkamlega erfiðar heldur einnig hugarfarslega. 

Vinnan, fjölskyldan, félagslífið getur allt sett strik í reikninginn þegar kemur að æfingum eða að halda mataræðinu í toppstandi.

Æfingar á morgnana er skotheld leið til þess að tryggja æfingu dagsins.  Tilhugsunin um að rífa sig á lappir fyrir allar aldir er ekki girnilegur kostur í huga margra en staðreyndin er sú að ekki margt í lífinu kemur í veg fyrir æfingu kl. 6 að morgni. Hins vegar getur ýmislegt komið upp á yfir daginn sem gæti orðið til þess að æfing eftir vinnu sé látin sitja á hakanum.

Í líkamsrækt er nauðsynlegt að hugsa eins og skáti og vera "ávallt viðbúinn" óvæntum aðstæðum sem gætu truflað rútínuna.

Þeir sem ná árangri í líkamsrækt eru þeir:

  • sem fara vel og vandlega yfir tímaplanið sitt og sníða æfingaáætlun og mataræði í samræmi við það. 
  • undirbúa máltíðir dagsins kvöldið áður til að koma í veg fyrir:

að máltíðir detti út

að óhollustu sé neytt því ekkert annað sé í boði.

  • sem bæta upp ef æfing dettur út um morguninn, með því að æfa í hádegi, eða eftir vinnu.
  • sem velta sér ekki upp úr því ef æfing dettur út þann daginn, heldur halda sínu striki daginn eftir
  • sem bæta upp ef máltíð dettur út með því að borða eins fljótt og kostur er
  • láta ekki óvænta svindlmáltíð breytast í svindldag eða svindlviku. Í stað þess að hugsa "æi fokk it, dagurinn er hvort eð er ónýtur, ég fer aftur í hollustuna á morgun", byrja þeir strax aftur í hollustunni í næstu máltíð

 

Besti hugsunarhátturinn er forvörn, að reyna að koma í veg fyrir að við dettum út af sporinu.

En það er óhjákvæmilegt að eitthvað komi upp á sem raskar rútínunni og þá er mikilvægt hugsa um að laga skaðann í stað þess að leyfa pirringi og depurð að ná yfirhöndinni. 

 

Fólk sem nær árangri í líkamsrækt eru þeir sem leita að lausnum á vandamálunum.

Þeir sem ekki ná árangri eru þeir sem leita að afsökunum.

 

 

 

 

 

 

 


Dásemdir hörfræja

Dyggir lesendur þessarar síðu kannast líklega við rausið í Naglanum um góðu Omega fituna í fiski sem hjálpar til við að brenna líkamsfitunni. En þeir finnast víst sem hafa óbjóð á fiski en það þýðir bara meira fyrir okkur hin sem kunnum að meta gull hafsins, og lífið úr brjóstinu á þjóðinni. 

 

Fyrir þá sem fúlsa við fiski og fyrir þá sem vilja tryggja að mataræðið sé skothelt eru hörfræ dásamleg viðbót í Omega-3 flóruna.

Hörfræ eru:

Sneisafull af Omega-3 fitusýrum,

Pökkuð af vítamínum og steinefnum: t.d zink, járni, E-vítamíni, magnesium, kalki o.fl o.fl

Full af trefjum bæði uppleysanlegum og óuppleysanlegum.

 

Trefjar eru mjög mikilvægur þáttur í mataræði hvers og eins.  Trefjar fara ómeltar alveg niður í ristil þar sem þær hamast eins og skúringarkonur og halda honum þannig í toppstandi.  Eftir hreingerninguna eru þær síðan brotnar niður.

 

Skortur af trefjum í mataræði getur valdið:

krónísku harðlífi (getur ekki verið gaman)  

vandamálum með þyngdarstjórnun (nóg er af öðrum vandamálum í lífinu)

Háþrýstingi

Hjartasjúkdómum

Sykursýki

 

Omega - 3  fitusýrurnar í hörfræjum kallast ALA (alpha linoleic acid).

ALA eru afar gagnlegar fyrir vöðvauppbyggingu þar sem þær auka insulin næmi inni í vöðvafrumum. 

En það er ekki eina dásemdin við ALA því áhrif hennar á líkamann er margþætt.

 

Áhrifin felast m.  a.  í að:

 

Bæta ónæmiskerfið

Byggja heilbrigða frumuveggi

Stjórna sléttum vöðvum og ósjálfráðum viðbrögðum

Flytja blóð til fruma líkamans

Stjórna taugaboðum

Meginorka hjartavöðvans

 

Þannig getur neysla á hörfræjum komið í veg fyrir ýmsa kvilla og sjúkdóma á borð við krabbamein og hjarta - og æðasjúkdóma.

 

Fyrir fólk í þjálfun hefur neysla á hörfræjum eftirfarandi áhrif:

 

Minni líkamsfita

Aukin frammistaða á æfingum

Minni harðsperrur

Aukin nýtni á súrefni

Aukin nýtni á næringarefnum

Góð uppspretta orku

 

Hvernig notum við hörfræ?

Það þarf að mylja hörfræ áður en þeirra er neytt.  Hægt er að kaupa fyrirfram mulin en mun ódýrara er að kaupa poka af helium fræjum og mylja í blandara.  Síðan er mulningurinn geymdur í ísskáp.  Hann má svo nota út á hafragrautinn, í eggjahvítur, salatið, prótínsjeika. 

Naglinn mælir sérstaklega með eggjahvítupönnsum með muldum hörfræjum....algjört sælgæti Tounge

Eins er hægt að kaupa hörfræolíu og bæta út í prótíndrykki eða drekka beint af kúnni fyrir þá allra hörðustu.  Olíuna skal einnig geyma í kæli.

 

Hvort sem notað er, mulin hörfræ eða hörfræolía, skal miða við 1-2 matskeiðar á dag.

 

 

 


Ósáttur Nagli

Nú er Naglinn ósáttur við lífið og tilveruna. Ástæða ógleðinnar er sú ákvörðun Þrekmeistaranefndar að setja keppnina ekki fyrr en 10. nóvember þegar aðeins tvær vikur eru í fitness mótið þann 24. nóvember. Þá verður Naglinn svo aðframkomin af hungri og vosbúð í bullandi niðurskurði að árangur mun líklega ekki verða í samræmi við væntingar.

Ætla samt ekki að hætta að æfa fyrir Þrekmeistarann heldur sjá hvernig staðan verður á skrokk og orku þegar 10. nóvember rennur upp.

Er samt ekki sátt við þessa menn, því ég hafði gert ráð fyrir keppninni í byrjun október eins og í fyrra og það hefði passað eins og flís við rass inn í prógrammið mitt. En ég er víst ekki innsti koppur í búri þegar kemur að skipulagningu móta á Íslandi.


Mótivasjón eftir helgina

Jæja!! Þá er enn ein verslunarmannahelgin afstaðin og án efa nokkrir illa myglaðir í dag eftir gleði og glaum helgarinnar.

Tilhugsunin um hlaupabretti og sveitta rassa í ræktinni kallar vafalítið fram ógleði hjá mörgum í dag.  Það er ansi freistandi að snúa sér á hina hliðina í rúminu og snooza út í hið óendanlega.

Hér koma því nokkur hvatningarorð upp á engilsaxnesku til að sparka í rassinn á útilegukindum og miðbæjarrottum.

 

 "Champions are not born; they are made through hard work and dedication."

"The pain is only temporary; success is everlasting."

"The only limitations we have are the ones we impose on ourselves."

"Love what you do and do what you love.  Everything else is in the details."

"You can only go as far as you can push yourself."

"The reward of a thing well done is to have done it." Ralph Waldo Emerson

"All good things are difficult to achieve; and bad things are very easy to get." Morarji Desai

"Never be satisfied with what you achieve, because it all pales in comparison with what you are capable of doing in the future." Rabbi Nochem Kaplan

"Difficulties should act as a tonic. They should spur us to greater exertion." B. C. Forbes

"Triumphs without difficulties are empty. Indeed, it is difficulties that make the triumph. It is no feat to travel the smooth road."

"A desire can overcome all objections and obstacles." Gunderson

"Motivation is what gets you started. Habit is what keeps you going." Jim Ryun

"Progress has little to do with speed, but much to do with direction."

"Obsessed is what the lazy call the dedicated"

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ragnhildur Þórðardóttir
Ragnhildur Þórðardóttir

Hér læt ég gamminn geysa um ýmislegt sem tengist hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og hollu mataræði í formi pistla og fróðleiks.  Mín lífsviðhorf eru að góð heilsa er gulli betri og að í hraustum líkama býr heilbrigð sál. 
Ég tek einnig að mér fjarþjálfun.

Allar upplýsingar um fjarþjálfun á www.ragganagli.com

Spurt er

Hvað gerirðu margar brennsluæfingar á viku?

Nýjustu myndir

  • front-plank-exercise
  • binge_barbie
  • sleep-deprived
  • phpwWI9BvAM
  • eating too much

Aðrir vaðlarar

Bækur

Góðar bækur

  • Bók: A Thousand Splendid suns
    Khaled Hosseini: A Thousand Splendid suns
    Frábær bók en jafnframt mjög átakanleg. Þurfti að loka henni nokkrum sinnum og jafna mig því lýsingarnar á heimilisofbeldinu voru einum of grafískar fyrir minn smekk.
    *****
  • Bók: Kite runner
    Khaled Hosseini: Kite runner
    Algjör snilld. Fjallar um tvo drengi í Afganistan í kringum 1970 áður en allt fór til fjandans þar í landi.
    *****
  • Bók: On beauty
    Zadie Smith: On beauty
    ***
  • Bók: Espresso tales
    Alexander McCall Smith: Espresso tales
    Framhald af 44 Scotland Street. Er að lesa hana núna.
  • Bók: 44 Scotland Street
    Alexander McCall Smith: 44 Scotland Street
    Gerist í Edinborg og þvílík nostalgía sem ég fæ við að lesa þessa bók enda kannast maður við alla staðina sem fjallað er um.
    ****
  • Bók: The time traveller's wife
    Audrey Niffenegger: The time traveller's wife
    Með betri bókum sem ég hef lesið. Falleg ástarsaga um mann og konu sem þurfa að díla við tímaflakk mannsins.
    ****
  • Bók: We need to talk about Kevin
    Lionel Shriver: We need to talk about Kevin
    Hugleiðingar móður fjöldamorðingja um áhrif uppeldis og erfða. Mjög athyglisverð lesning, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á "nature-nurture" deilunni.
    *****

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 550733

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband